Andvari - 01.03.1969, Síða 64
62
VALDIMAR J. EYLANDS
ANDVARI
ber mjög á fjölgyðistrú, og allt er á tjá og tundri í goðaheimi. Maðurinn er skap-
aður eingöngu til að þóknast guðunum, hann ber enga ábyrgð á verkum sínum
og er aldrei frjáls. Siðgæðishugmyndir Gyðinga fyrirfinnast ekki í þessum ritum,
og ekki ber á, að Súmerar hafi hugsað sér, að maðurinn hafi valfrelsi. Hann er
aðeins verkfæri í höndum guðanna, og honum ber umfram allt að beygja sig
undir vilja þeirra með skilyrðislausri hlýðni.
Samkvæmt sköpunarsögu Súmera skapaði guð manninn, af því að honum
leiddist og hann vildi fá einhvern til að dást að sér og dýrka sig. En það varð á
þessa leið: í upphafi var KAOS, illvígt kvenskass, sem réð vetrarvindum og regni.
ASPU, hafið, og Kaos blönduðu sjó og vatni, og þannig skapaðist lífið. Fyrst
voru tveir guðir skapaðir, Lakhmu og Lakhmanu, og svo hver af öðrum, unz
heill goðaheimur var til orðinn, og var svo hverjum guðanna fengið sitt hlutverk
á himni og jörð. Ein gyðjan gat son, sem nefndur er ýmsum nöfnum: Gilgames
með Súmerum, Marduk hjá Assyríumönnum og Izduban meðal Babyloníu-
manna. Gilgames skapaði fjóra stormguði, sem sumir telja, að séu í ætt við fjóra
reiðmenn Opinberunarbókarinnar. Gilgames tók Kaos af lífi, klauf líkama
hennar í tvo hluta. Af öðrum þeirra skapaði hann himininn, en jörðina af hinum.
Nú var allt hljótt í goðheimi um hríð. En nú fór Gilgames að leiðast lífið. Skap-
aði hann þá manninn sér til skemmtunar úr „beinum sínum og blóði“, svo að
hann mætti teljast skyldur goðunum, en þó skyldi hann heiðra þá og tilbiðja.
Syndaflóðssagan í útgáfu Súmera er að uppistöðu hetjusögn um guðinn Gil-
games, en víkur þó vafalaust að raunverulegum viðburðum, sem lifðu og marg-
földuðust í munnmælum kynslóða. Önnur hetja sögunnar er JJtna Pishtim, sem
samsvarar Nóa biblíunnar, og átti hann heima í Shuruppak, á bökkum Evfrats-
árinnar. Þessi bær er talinn hafa verið þar, sem nú heitir Fara, og er ljóst af upp-
greftri, að þar hefir fyrir óramörgum öldum verið vatnsflóð mikið.
Gilgames hittir Utna Pishtim í undirheimum, fær þær fréttir hjá honum, að
guðirnir Anu og Enlil hafi ákveðið að eyðileggja borgina Shuruppak. En EA,
guð miskunnsemdanna, ákvað að bjarga a. m. k. einum manni. Hún birtist því
Utna Pishtim í draumi og lagði fyrir hann að eyðileggja kofa sinn og byggja
stórt skip. Fyrirmælin um byggingu skipsins minna mjög á ákvæðin um byggingu
arkarinnar, sem Nói bjargaðist í, og var þó sú saga skráð þúsund árum síðar.
Þegar Utna Pishtim hafði byggt skip sitt, tók hann um borð fjölskyldu sína, kvik-
fénað og þjónustulið. Segir hann svo sjálfur frá í ljóði, sem frægt er orðið. Er
það sett fram hér 1 þýðing af þýðingu; má því vel vera, að orðalag frummálsins
hafi brenglazt í meðferðinni, en hugsunin heldur sér vafalaust: