Andvari - 01.01.1978, Blaðsíða 67
andvari
UM RÉTTLÆTI í ÍSLENZKUM FORNSÖGUM
65
réttmætt, aö Þorsteinn vegur Þórð eftir þessi orðaskipti og athafnir. Svipuðu
máli gegnir um þá bræður Þórhall og Þorvald, aðra menn Bjarna goða, sem
eru „uppaustrarmenn miklir um allt það, er þeir heyrðu í héraði“. Þeir skop-
ast að Bjarna fyrir að hefna sín ekki á Þorsteini fyrir vígið á Þórði, en Bjarni
sendir þá sjálfa til að færa þann flekk af virðingu hans, og lýkur þeim
málum með þeim hætti, að þeir falla báðir fyrir Þorsteini, þegar þeir reyna
að ráða honum bana. Næst verður Bjarni fyrir eggjun konu sinnar, og að
lokum fer hann einn síns liðs að berjast við Þorstein. Þótt Þorsteinn hafi
næg færi að verða banamaður Bjarna, þá lýkur einvígi þeirra með eins
konar jafntefli; í stað þess að hefna manna sinna, þykir honum sem sér
sé „fullgoldið fyrir þrjá húskarla mína þig einn, ef þú vilt mér trúr vera“.
Hér eins og víðar í sögum er hefnd ósamrímanleg við réttlæti, og Bjarni
á Hofi velur réttlætið.
í Bandamanna sögu og raunar víðar eru átök með bókstaf laganna og
sönnu réttlæti. Oddi Ófeigssyni verður á sú skyssa að búa eftirmál sftir
Vála fóstbróður sinn ranglega til alþingis, en vegandi er „ójafnaðarmað-
urinn“ Óspakur, sem raunar er manndrápari og sauðaþjófur. Faðir Odds
(„spekingur mikill og hinn mesti ráðagerðarmaður“) bjargar þó málinu.
Þegar hann ávarpar dómendur, segir hann meðal annars: „Sýnist yður
það með nokkrum réttindum, að gefa gaum að slíku, er einskis er vert,
en dæma eigi hinn versta mann sekan, þjóf og manndrápsmann? Er það
eigi ábyrgðarhlutur mikill að dæma þann sýknan, er dráps er verður, og
dæma svo í móti réttindum? .. . En hvað er sannara en dæma hinn versta
mann sekan og dræpan og firrðan allri björg, þann er sannreyndur er að
stuld og að því, að hann drap saklausan mann, Vála? ... Hyggið nú að
fyrir yður, hvort meira er vert þessi tvö orðin, er sæta sannindum og
réttindum (þ. e. sannast og réttast) eða hitt, er víkur til laganna (þ. e. helzt
að lögum). Svo mun yður sýnast sem er, því að þér munuð sjá kunna, að
það er meiri ábyrgð að dæma þann frjálsan, er maklegur er dauðans, en
hafa áður svarið eiða, að þér skylduð svo dæma sem þér vissuð réttast."
Þó verður niðurstaðan sú, að Ófeigur gamli mútar dómendum til að kveða
upp dóm sem er í anda réttlætis og gera Óspak sekan. Nú var það talið
alvarlegt brot á siðferðilegu velsæmi að múta dómendum og lögmönnum,19
enda verður Eyjólfi hált á því í Njálu, og í Bandamanna sögu grípur Ófeigur
til þess úrræðis síðar, þegar reynt er að ónýta málið og gera Odd sekan
fyrir mútur í fyrra málinu. Allt um það getur enginn vafi leikið á siða-
boðskap Bandamanna sögu: réttlæti er sett skör ofar en bókstafur laganna,
og jafnvel þótt Ófeigur verði að beita ólöglegum aðferðum í því skyni að
gera glæpamann sekan og bjarga saklausum manni, þá er slíkt ekki talið
rangt af sjónarhóli sögunnar í heild.
í íslenzkum fornbókmenntum er greinarmunur gerður á handbana (þ. e.