Prestafélagsritið - 01.01.1922, Blaðsíða 97
Prestafélagsritiö.
Frumkristni þjóðar vorrar.
93
Þorkel mána. »Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt
sinni og fól sig á hendi þeim guði er sólina hafði skapað.
Hann hafði og lifað svo hreinlega sem þeir kristnir menn er
bezt eru siðaðir«.
Loks hafa ýmsir gerst heiðninni fráhverfir í hjarta, við það
að kynnast kristinni trú, enda þótt ekki væri um fullkomnari
mynd hennar að ræða, en kemur í ljós í frumkristni Islands,
og við samanburð á henni og hinum gamla heiðna átrúnaði.
Sjálfan kjarna kristnu trúarinnar þektu þeir að vísu ekki; en
þeim fékk sízt dulist, að hún var bæði andlegri og um leið
göfugri en gamli átrúnaðurinn með þessum guðum, sem í
engu tóku mönnunum fram. En það var hin kristna guðs-
dýrkun, eins og hún birtist í guðsþjónustu og helgum siðum
og athöfnum, sem sérstaklega tók huga þeirra fanginn. Feg-
urð guðsþjónustunnar, hljómur klukknanna, tíðasöngurinn,
reykelsisilmurinn, messuskrúðinn, altarisljósin o. s. frv., alt
þetta greip þá með undravaldi. Þetta var eitthvað annað en
það sem þeir þektu úr hofunum með öllum þeim óhrjáleik,
sem einkendi guðsdýrkunina þar. Hér var það, sem hreif jafnt
augá og eyra, hér var það, sem fékk snortið tilfinningar
þeirra. »Mystik« hinnar katólsku guðsþjónustu lét þá beint
kenna nálægðar hins ósýnilega guðdóms kristnu trúarinnar. —
En þó ekki væri annað en þessi áhrif á tilfinninguna, þá var
það eitt nægilegt til þess að sannfæra þá um, að hér væri
um »fullkomnari« átrúnað að ræða og þá um leið »betri« —
betur fallinn til að fullnægja dýpstu og helgustu þrá sálar-
innar, þránni eftir guði og samfélagi við hann. En þá full-
nægju hafði gamli átrúnaðurinn ekki getað veitt þeim, sízt
eins og hann hafði spilst og afskræmst í meðvitund manna.
Með þessum hætti hefir þá hin þróttlitla frumkristni Islands
átt nokkurn þátt í því, hve greiðlega tókst að fá kristna trú
lögtekna í þjóðfélagi voru árið 1000 og þá ekki síður í því
hve fljótt hún náði tökum á huga þjóðar vorrar, til þess að
verða henni alt fram á þennan dag meginstoð hennar í allri
baráttu hennar.