Sjómannadagsblaðið - 05.06.1988, Page 213
SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ
211
Guðrún R. Pétursdóttir, form. kvennadeildar SVFÍ í Garði við ratsjá og fjarskiptabúnað björgunarsveitarinnar Ægis í Garði.
Ljósm./Hilmar Bragi Bárðarson.
Guðrún gekk í kvennadeild
Slysavarnafélagsins í
Garði strax og hún flutti
upp á land. Það kom ekki til álita
fyrir þeim hjónum að snúa aftur til
Eyja. Hús þeirra fór undir hraun og
þau komu sér fljótlega vel fyrir í
Garðinum; Jóel og bræður hans
fengu góða aðstöðu til að gera út bát
sinn. Börn þeirra Guðrúnar og Jóels
eru fjögur — og þegar þau tóku að
stálpast fór Guðrún að vinna utan
heimilis, fyrst í fiski, en nú í ellefu ár
hefur hún unnið hjá Pósti og síma í
Garði. — En hvenærskyldi hún hafa
orðið formaður kvennadeildar SVFÍ
í plássinu?
„Það var um líkt leyti og ég hóf
störf hjá Pósti og síma, eða 1977.
Starf kvennadeildarinnar felst aðal-
lega í fjáröflun fyrir björgunarsveit-
ina og það er víst ábyggilegt að það
er nóg við peningana að gera hjá
þeim. Núna eru um 60 konur félagar
í kvennadeildinni hér og við komum
reglulega saman, skipuleggjum
starfið og ræðum málin.
Aðalfjáröflunarleiðirnar eru
kökubasar, sem við höldum tvisvar á
ári, blómasala fyrir Sjómannadag-
inn, — allar konur í Garði gefa
mönnunum sínum blóm á Sjó-
mannadaginn, — og sala á jólakort-
um, jólapappír og fleiru fyrir jólin.
Allur ágóðinn af þessu starfi rennur
til björgunarsveitarinnar Ægis hér á
staðnum. Enda þótt hún sé nú kom-
in með best útbúnu stjórnstöð í land-
inu, þá er enn eftir að borga af bátn-
um sem sveitin á í félagi við Sand-
gerðinga og viðhald og rekstur á
tækjum sveitarinnar kostar nú sitt.
Bæjarfélagið styrkir sveitina árlega
og sjálfir afla björgunarsveitarmenn-
irnir fjár með ýmsum hætti. Núna
t.d. eru þeir, með okkar hjálp reynd-
ar, að opna greiðasölu fyrir ferða-
menn í gamla vitanum, en geysi-
margt ferðamanna kemur hingað á
sumrin, og vonandi að þessi ný-
breytni gefist vel.