Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Side 74
SKIPT UM SKOÐUN
Ef nemendur hafa af einhverjum ástæðum ríkari tilhneigingu til þess að reyna
fyrir sér í bóknámi en námsgeta eða raunverulegur ásetningur gefur tilefni til, ætti
hátt hlutfall þeirra að flytja sig á aðrar brautir fyrr en varir. Flutningur ætti að vera
meiri úr bóknámskerfinu en inn í það. Tæp 80% þeirra, sem flytja sig, eru upphaf-
lega skráðir á stúdentsbrautirnar, sem virðist koma heim við þessa fullyrðingu, en
hlutfallslega flytja álíka margir sig af öllum brautunum, þ.e. 16-22% (sjá Töflu 3).
Sérstaða bóknámsbrautanna liggur aðeins í því að svo margir skrá sig þar í upphafi.
Meira að segja er það svo að lægst hlutfall nemenda flytur af bóknámsbrautunum
en hlutfallslega mestur flutningur er af iðnnámsbrautunum.15
SKÝRINGAR Á FLUTNINGI
Hér að framan hefur ekkert mið verið tekið af mismunandi námsgetu þeirra sem
velja brautirnar í upphafi, né athugað hvort bakgrunnur þeirra sem flytja sig gæti
verið ólíkur. Líkurnar á flutningi og lokum náms tengjast líklega námsgetu eða
hvatningu til náms og heilsteyptasta vísbendingin, sem tiltæk er um þessi atriði, er
frammistaða á samræmdum prófum. Hér er látið liggja á milli hluta hvort prófin
mæli fyrst og fremst kunnáttu í nokkrum höfuðnámsgreinum framhaldsskólans
eða hvort þau séu öllu frekar mælikvarði á almenna námsgetu eða aðra þætti sem
tengjast námi. (Sjá umfjöllun um þetta atriði í Jón Torfi Jónasson og Guðbjörg
Andrea Jónsdóttir 1992, 2. kafli; Gerður G. Óskarsdóttir 1992 og Guðmundur B.
Arnkelsson 1994).
Nemendur, sem ljúkja námi sínu, hafa að meðaltali hærri einkunnir en þeir sem
ekki gera það (A=l,58, sjá aftasta dálk í Töflu 4). Aftur á móti er ekki munur á ein-
kunnum þeirra sem flytja sig og þeirra sem ekki gera það þegar á heildina er litið
(A=0,68, sjá aftasta dálk í Töflu 4).
Munur á einkunnum þeirra sem Ijúka og þeirra sem ekki ljúka kemur ekki á
óvart og samvirkni námsloka og námsbrauta gerir það varla heldur. Einkunnir á
samræmdum prófum ættu að spá best fyrir um námslok á þeirri braut þar sem nám-
ið er skyldast því sem er prófað í samræmdu prófunum, þ.e. stúdentsbraut. Dreifi-
greiningin bendir til þess að svo sé, því samkvæmt Töflu 4 verður að túlka skýra
samvirkni námsloka og námsbrauta þannig að mest af henni megi rekja til þess að
meiri einkunnamunur sé á þessum hópum (hópi sem hefur lokið og hópi sem ekki
hefur lokið) á stúdentsbrautunum en í hinum flokkunum tveimur.
Það kemur aftur á móti nokkuð á óvart að ekki skuli vera samband á milli ein-
kunna og flutnings. Athugum þetta nú eilítið nánar. Að því var vikið í upphafi að
helst mætti búast við því að þeir flyttu sig á milli brauta sem ekki réðu við upphaf-
lega braut eða líkaði hún ekki og vildu reyna sig annars staðar. Það blasir þó ekki
við þegar athugaðar eru einkunnir á samræmdum prófum (í Töflu 4).
15 Tölfræðileg athugun sýnir samband á milli brauta og flutnings, en sambandið er bersýnilega ekki sterkt og ekki
verður gert mikið úr því hér.
72