Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Qupperneq 16
MALÞROSKI BARNA VIÐ UPPHAF SKOLAGONGU
rannsóknir á sögubyggingu og samloðun í sögum barna á þessu reki einungist beinst
að öðrum þessara þátta, þ.e. annaðhvort að málaðferðunum (samloðun) eða að vits-
munalegu hliðinni (sögubyggingu). í þessari rannsókn var jafnframt kannað hvort
fylgni væri á milli byggingar eða samfellu í sögum barnanna og samloðunaraðferða.
Að mati greinarhöfundar er brýnt að fá svör við þessum spurningum. Um þessar
mundir er mikil vakning meðal kennara og uppalenda um hljóðvitund, enda hefur
fjöldi rannsókna sýnt fram á mikilvægi hennar í fyrsta lestrarnámi barna (sjá yfirlit
t.d. í Snow, Burns og Griffin, 1998). Próf hafa verið hönnuð til að greina sem fyrst
börn sem eru í áhættuhópi hvað þetta snertir og búin til þjálfunarprógrömm til að
fyrirbyggja lestrarörðugleika.
Mun minni athygli hefur beinst að málþroska í víðari skilningi, svo sem orðaforða,
orðræðu og pragmatík, sem allt eru þó lykilþættir í lesskilningi og námsárangri. Er-
lendis hafa fræðimenn vakið athygli á þeirri hættu að almennur málþroski verði
hreinlega útundan á fyrstu skólaárunum vegna ofuráherslu á smæstu einingar máls-
ins, hljóð og stafi (sjá t.d. Dickinson og Tabors, 2001; Snow, Burns og Griffin, 1998;
Snow og Tabors, 1993). Þjálfun hljóðvitundar er mikilvægur liður í lestrarkennslu, en
það augljóst að hún gagnast ekki endilega til að örva málnotkun sem liggur að baki
lesskilningi - þ.e. samloðun og samfellu, orðaforða og beitingu málfræði í uppbygg-
ingu orðræðu. Að mati greinarhöfundar er afar mikilvægt að þróa matstæki fyrir
þessa þætti svo hægt sé að greina sem fyrst börn sem eru í áhættuhópi varðandi
þennan þátt málþroska og grípa til viðeigandi úrræða. Á miðstiginu aukast kröfur
um að börn læri í gegnum lestur og skilji flókinn texta í ræðu og riti. Það er fullseint
í rassinn gripið ef slakur málþroski er þegar farinn að há börnunum á öllum sviðum.
AÐFERÐ
Þáfttakendur
Þátttakendur í rannsókninni voru 165 börn á aldrinum fimm ára og fjögurra mánaða
og fimm ára og tíu mánaða. Valdir voru tólf leikskólar á Reykjavíkursvæðinu með
það að leiðarljósi að úrtakið endurspeglaði félags- og efnahagslega breidd íbúa á
höfuðborgarsvæðinu. Úr leikskólunum tólf var síðan tekið slembiúrtak 176 barna. Af
þeim náðist til 165 eða 94%. í endanlegu úrtaki reyndust vera 91 stúlka og 74 drengir.
Börn, sem greind höfðu verið með sértæk þroskafrávik, og börn með annað móður-
mál en íslensku, voru ekki með í úrtakinu.
Rannsóknartæki
Myndabókin Frog, where are you? (Mayer 1969, hér eftir gjarnan nefnd froskasagan)
var notuð til að kalla fram sögur þátttakenda. Froskasagan er myndasaga án texta
með 24 myndum sem ekkert barnanna hafði séð áður. Myndirnar segja sögu af þrem-
ur aðalpersónum, dreng, hundinum hans og froski sem strýkur frá þeim í skjóli næt-
ur. Meginhluti bókarinnar rekur í myndum leit þeirra félaga að froskinum, og ýmis
ævintýri og hremmingar sem leitin leiðir þá í. í bókarlok sjást þeir finna froska og fara
með einn þeirra heim á leið.
14