Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Síða 20
MÁLÞROSKI BARNA VIÐ UPPHAF SKÓLAGÖNGU:
greinarhöfundar frá 1992 (hér eftir oft skammstafað R-1992). Loks greinir þriðji hlut-
inn frá niðurstöðum sem varða tengsl milli samloðunar, sögubyggingar og lengdar
frásagna barnanna.
Hvað einkennir sögubyggingu barna í þessum aldursflokki?
Hið dæmigerða fimm ára barn sagði ekki hefðbundna sögu með inngangi, söguþræði
og endi frekar en við var að búast. Niðurstöður nú voru mjög svipaðar niðurstöðum
litlu rannsóknarinnar R-1992. Áður en nánar verður farið ofan í saumana á þeim, er
rétt að taka fram að kynin voru borin saman á öllum sviðum. Munurinn á þeim var
hvergi tölfræðilega marktækur þó sú tilhneiging sæist svo til alls staðar að stúlkurnar
væru sterkari en drengirnir. I kynningu á niðurstöðum verða kynin því ekki aðskilin.
Meðallengd frásagna í hópnum í heild reyndist vera 36 setningar, eða nær sú sama
og í litla fimm ára hópnum sem var með 32 setningar að meðaltali.
Meðalstigafjöldi fyrir sviðsetningu var sá sami og í 1992-hópnum, eða 0,5 stig.
Meðalfjöldi söguþátta var 3,2 eða svo til sá sami og í litla fimm ára hópnum í rann-
sókninni 1992 (N=10; M=3,3 söguþættir).
Samloðunaraðferðir voru líka mjög í anda fyrri rannsóknarinnar. Þannig notaði
fimm ára hópurinn nú aukatengingar í 6% af setningum sínum að meðaltali, í sam-
anburði við 5% í litla samanburðarhópnum R-1992. Raðtengdar setningar reyndust
nú 27% í samanburði við 30% í R-1992. Hlutfall setninga sem tengdar voru með aðal-
tengingunni „og" var nokkuð hærra en í samanburðarhópnum eða 28% af öllum
setningum samanborið við 17% í fyrri rannsókn. Loks voru benditengingar 3% í sam-
anburði við 5% í R-1992.
í stuttu máli staðfesta niðurstöður nú R-1992: Dæmigerð fimm ára börn kynna
ekki sögupersónur eða aðstæður í upphafi sögunnar og þótt greina megi slitrur úr
söguþræði froskasögunnar í frásögnum þeirra, hafa þær ekki heildarbyggingu eða
eiginleg sögulok. Samkvæmt niðurstöðunum er samloðun líka skammt á veg komin
í þessum aldursflokki. Meðal fimm ára barn tengir saman setningar með einföldum
aðaltengingum, einkum „og", „og svo", en notar aukasetningar og aðrar flóknari teng-
ingar sáralítið. Benditengingar eru ekki algerlega horfnar en í miklu undanhaldi frá
því sem var í hópi þriggja ára barnanna. Þetta er samhljóða niðurstöðum úr fyrri
rannsókn greinarhöfundar á jafnöldrum barnanna.
Eins og fram kom í inngangi hafa flestar rannsóknir á frásögnum barna, þeirra á
meðal íslenska rannsóknin frá 1992 (Hrafnhildur Ragnarsdóttir), beinst að fámenn-
um úrtökum, gjarnan 10-15 í hverjum aldurshópi. Þær hafa því ekki gefið tilefni til
athugana á einstaklingsmun innan jafnaldrahópa. Eitt meginmarkmið rannsóknar-
innar nú var að kanna hversu mikill munur getur verið á frásagnarhæfni barna við
upphaf skólagöngu. Ein athyglisverðasta niðurstaða hennar er hversu gríðarlegur
einstaklingsmunur kom í ljós þegar úrtakið var stækkað. Þessi mikli munur kom
fram á öllum mælingum: sögubyggingu, samloðun, setningagerð auk orðaforða,
málfræði og fleiri þátta sem ekki verða raktir í þessari grein.
I
18