Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Side 76
TVÆR STEFNUR - TVENNS KONAR HEFÐIR I KENNSLU UNGRA BARNA
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sú alþjóðlega tilhneiging að færa
formlegt námsgreinamiðað nám neðar sé á sömu leið á íslandi. Námsefni þeirra sex
ára barna sem grunnskólakennararnir kenndu virðist sambærilegt því sem sjö ára
börn voru að vinna með fyrir tveimur áratugum. Þetta er sambærilegt við t.d. þróun
„kindergarten" bekkjanna í Bandaríkjunum sem í upphafi var ætlað að búa börnin
undir skólagönguna, en hafa nú að verulegu leyti verið innlimaðir í grunnskólann og
börnum er kennt námsefni sem áður var ætlað fyrsta bekk (Hirsh-Pasek, 1990;
Hyson, 1991; Stipek, 1991; Walsh, 1989).
í aðalnámskrám leikskóla og grunnskóla er kveðið á um að skólastigin hafi sam-
starf sín á milli. Niðurstöður rannsóknarinnar vekja upp spurningar um eðli og
áherslur sliks samstarfs. Gæti það e.t.v. haft í för með sér að skólastigin mættust á
þann veg að námsgreinamiðað nám yrði í auknum mæli hluti af leikskólanum líka?
Eða að leikskólinn legði aukna áherslu á undirbúning fyrir grunnskólann?
Til að skapa samfellu milli skólastiganna hefur verið lögð áhersla á að tengja hug-
myndafræði leikskólans og grunnskólans og nýta það besta úr báðum hefðum svo
sem áherslu leikskólans á samskipti, leik og foreldrasamstarf og áherslur grunnskól-
ans á námsmarkmið, kennsluaðferðir og árangur (sbr. OECD, 2001). Einnig hefur
hugmyndafræði Deweys um lýðræðislegan skóla undir öruggri leiðsögn kennarans
verið sett fram sem ákjósanleg leið (Kessler, 1991; Walsh, 1989). Svokölluð könnunar-
aðferð (project approach) er einnig kennsluaðferð sem hentar báðum skólastigum.
Þar vinna börnin sameiginlega að verkefnum sem vekja áhuga þeirra, í langan tíma,
gera rannsóknir, skrá niðurstöður sínar og kynna öðrum (Katz og Chard, 1989). Nám
sem gengur út frá leiknum og samskiptum barna og kennara í gegnum leik er einnig
athyglisverð leið sem gæti brúað bil milli kennsluaðferða leik- og grunnskóla
(Broström, 1999; Hakkarainen, 2004; Lindqvist, 2001).
Til þess að samfella í hugmyndafræði, skipulagi og kennslufræði (sbr. Kagan,
1991) þessara skólastiga verði að veruleika þarf að koma til töluverð viðhorfs- og
stefnubreyting hjá kennurum, foreldrum, stjórnvöldum og kennaramenntunarstofn-
unum. Sameiginleg sýn leikskóla og grunnskóla krefst endurskilgreiningar á hugtök-
um eins og umönnun, kennslu, námi og leik og jafnframt endurskoðunar á markmið-
um með menntun yngstu barnanna.
ÞAKKIR
Bestu þakkir fá kennararnir sem tóku þátt í rannsókninni. Rannsóknin var styrkt af
Rannsóknarsjóði Leikskóla Reykjavíkur. Arna Jónsdóttir og Gunnhildur Óskarsdóttir
lásu handrit og eru þeim færðar þakkir fyrir gagnlegar ábendingar.
74