Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Qupperneq 182
MEÐ GILDUM 5KAL LAND BYGGJA - GILDAGRUNNUR SKÓLANS
ala á einstaklingshyggju sem er óæskileg. Gildagrunnurinn bindur samfélagið sam-
an og hann er forsenda góðs mannlífs. Frjálslyndir aðhyllast þá lífsskoðun að einstak-
lingurinn: „eigi af eigin rammleik að mynda sér sjálfstæða lífsskoðun og rökstutt
gildismat á frjálsu markaðstorgi menningarinnar" (Vilhjálmur Árnason, 2001, bls.
642). Frelsið snýst ekki eingöngu um það eitt að vera laus undan ofríki ríkisvaldsins
heldur einnig að eiga fjölbreytta og raunhæfa valkosti.
Ola Sigurdson (1996) notar hugtökin neikvætt og jákvætt frelsi þegar hann gerir
greinarmun á afstöðu átthagasinna og frjálslyndra til sameiginlegs gildagrunns. Að
hans mati er neikvætt frelsi, sem einkennir siðferðisafstöðu frjálslyndra, frelsi undan
einhverju. Það birtist fyrst og fremst í fjölbreyttum valmöguleikum einstaklingsins og
það sem hindrar hann frá því að velja heftir frelsið og er þess vegna neikvætt. Hin
frjálslynda siðfræði heldur því fram að einstaklingur sé frjáls að því að gera það sem
hann vill svo framarlega að hann skerði ekki frelsi annars manns. Aftur á móti má
lýsa hinu jákvæða frelsi sem frelsi til að þroska hið sanna mannlega eðli, slíkt frelsi er
frelsi til einhvers. Frelsið liggur í því að vera frjáls að því að ná settu marki sem
manneskja þar sem markmiðið tekur mið af heildinni og stefnt er að hinu góða mann-
lífi.
Átthagasinnar höfða til sameiginlegra gilda sem eru fólgin í hinni menningarlegu
arfleifð og telja að þau haldi samfélaginu saman og vinni gegn upplausn og glund-
roða. Auk þess skapi sameiginlegur gildagrunnur vettvang til rökræðna um lífsgæði
og gildismat. Frjálslyndir gagnrýna þetta sjónarmið meðal annarra og benda á að arf-
leifðin sé ekki eingöngu sjóður visku heldur einnig vettvangur kúgunar og mismun-
unar. Hinir frjálslyndu vilja að einstaklingurinn sé frjáls að velja á markaðstorgi gild-
anna og leggja áherslu á mikilvægi algildra gilda.
SAMTALIÐ FORSENDA LÝÐRÆÐISLEGS SAMSTARFS
Samtalið er eitt mikilvægasta verkfærið í lýðræðislegu samstarfi. Forsendur fyrir
„góðu samtali" er góð félagsleg færni. Þessi færni felst í því að nemendur öðlist hæfni
til að setja sig í spor annarra, taki tillit til annarra, skiptist á skoðunum og læri að
vinna með öðrum. Þessir færnisþættir eru forsenda þess að lýðræðislegt samstarf sé
mögulegt og auk þess sem þessir færniþættir þróast í samskiptum einstaklinga og
hópa (Englund, 2000).
Lýðræðislegt samtal felst ekki eingöngu í réttinum að fá að tjá sig heldur einnig í
því að hlusta á aðra. Listin að hlusta felst í því að vera opinn fyrir röksemdafærslum
annarra og láta samtalið hreyfa við sér (Zackari og Modigh, 2000).
í nýjum rannsókum á hlutverki lýðræðis í skólastarfi hefur hin ígrundaða (deliber-
ativa) lýðræðissýn, sem á m.a. rætur í hugmyndum John Dewey, verið ríkjandi. Með
ígrunduðu samtali er átt við samtal þar sem ólíkar skoðanir og gildi takast á, einstak-
lingar taka afstöðu með því að hlusta, gagnrýna og rökræða, samtímis því sem reynt
er að finna sameiginleg gildi og viðmið sem allir geta samþykkt (Englund, 2000).
Fyrir utan John Dewey byggir þessi ígrundaða sýn á lýðræðið á hugmyndum Júrgen
Habermas og Seyla Benhabib. Það er athyglisvert að í Aðalnámskrá grunnskóla,
180