Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1982, Blaðsíða 155
Kennarar háskólans
153
sem var með ólíkindum. Kunni hann skil á
uppruna, skólagöngu og lífsferli fyrrum
nemenda sinna svo að þúsundum skipti, en
hann fylgdist með farnaði þeirra vegna þess,
að honum þótti vænt um þá. Hæfileikar
Ólafs voru margþættir og athyglisgáfa sér-
stæð, eins og hann hefði gætur á öllu því,
sem var að gerast hverju sinni. Hann hafði
næmt auga fyrir hinu stóra í hinu smáa.
Krístján Eldjárn, prófessor við heimspeki-
deild og fyrrverandi forseti Islands, andaðist
hinn 14. september 1982.
Hann var fæddur að Tjörn í Svarfaðardal
6. desember 1916. Að loknu stúdentsprófi
við Menntaskólann á Akureyri hóf hann
nám í ensku og latínu við Kaupmanna-
hafnarháskóla haustið 1936, enda var hann
mikill tungumálamaður, en fljótlega sneri
hann sér að námi í norrænni fornleifafræði.
Lauk hann fyrra hluta prófi, en haustið 1939
skall heimsstyrjöldin á, og var þá loku skotið
fyrir frekara nám þar að sinni. Hóf hann þá
að kenna við Menntaskólann á Akureyri, en
haustið 1941 hóf hann nám við Háskóla Is-
lands í íslenskum fræðum, jafnframt því
sem hann stundaði kennslu.
Vorið 1944 lauk Kristján meistaraprófi og
fjallaði prófritgerð hans um minjar úr
heiðnum sið á íslandi. Varð hann árið eftir,
'945, starfsmaður við Þjóðminjasafn Is-
'ands, og hann var síðan skipaður í embætti
Þjóðminjavarðar 1. des. 1947. Gegndi hann
því embætti allt til þess að hann tók við
embætti forseta íslands 1. ágúst 1968.
I forsetaembætti sat hann í 12 ár, en 1980
gaf hann ekki kost á sér í það embætti leng-
ur- Árið 1981 var honum veitt prófessors-
uafnbót við Háskóla íslands, og hugðist
hann flytja fyrirlestra við háskólann um
rannsóknir sínar á íslenskri menningarsögu.
Kristján Eldjárn varði doktorsritgerð
sína, Kuml og haugfé úr heiðnum sið á ís-
'andi, við Háskóla íslands 1957. Er hún
grundvallarrit um íslenska fornfræði, eink-
um allt það er snertir greftranir, haugfé og
stílsögu á fyrstu öldum Islandsbyggðar, en
grundvöll að þessu riti hafði Kristján lagt
með meistaraprófsritgerð sinni. Varð fom-
öld Islands sem og fyrri hluti miðalda síðan
það svið, sem Kristján rannsakaði hvað
mest og ýtarlegast, en segja má, að rann-
sóknir hans spönnuðu yfir alla þætti menn-
ingarsögunnar allt til vorra daga. Færði
hann þó akur sinn drjúgum út fyrir það, sem
kallað er menningarsaga í venjulegum
skilningi þess orðs. Ná rannsóknir hans
drjúgum til annarra þátta, svo sem bók-
mennta og málssögu.
Þegar Kristján Eldjárn kom að Þjóð-
minjasafninu og mörg hin fyrstu ár hans í
embætti þjóðminjavarðar var starfslið
safnsins fámennt og stofnuninni í rauninni
búnar mjög þröngar skorður um starfsemi
alla. Því urðu starfsmenn að takast á við hin
ólíklegustu viðfangsefni, og komu í hlut
Kristjáns hvers konar safnstörf, skráning,
heimildasöfnun, eftirlits- og rannsóknar-
ferðir auk hinnar daglegu stjórnsýslu sem
þjóðminjavörður. Þar við bættust svo
fræðaiðkanir og rannsóknir, sem urðu brátt
hinar margvíslegustu, og sést hér gleggst,
hve kappsfullur og afkastamikill hann var
við rannsóknar- og ritstörf, enda nýttist
honum tíminn vel.
Kristján endurvakti Árbók hins íslenzka
fornleifafélags til lífs og varð ritstjóri hennar
frá heftinu sem út kom fyrir árin 1943—48
og allt til dauðadags. Skrifaði hann sjálfur
fjölmargar greinar i Árbókina, og komu
næsta fáar Árbækur svo út, að þar væri ekki
grein eða greinar eftir hann. Flestar byggðu
þær á eigin rannsóknum, enda tóku rann-
sóknarverkefnin drjúgan hluta af vinnudegi
hans og frístundum. Rannsakaði hann
sjálfur fjölmörg fornkuml, bæjarrústir og
byggingaleifar frá landnámsöld og miðöld-
um svo og síðari tímum, ýmist einn eða með
öðrum, svo og ýmis mannvirki önnur. Þá
stóð hann fyrir hinum umfangsmiklu forn-
leifarannsóicnum í Skálholti 1954—55, þar