Hugur - 01.01.2002, Síða 82
Hugur
Atli Harðarson
námsgreinanna komist til skila. Skólunum er t.d. ætlað að stuðla að al-
hliða þroska og búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi.
Ég tel mig nú hafa fært gild rök fyrir því að allir skólar hljóti að reyna
að móta siðferði nemenda sinna að einhverju marki og að íslenskum
grunn- og framhaldsskólum sé ætlað allvíðtækt hlutverk á þessu sviði.
Þá er komið að því að spyrja hvernig best sé að skólarnir geri þetta.
Hingað til hafa skólar rækt uppeldishlutverk sitt með því, fyrst og
fremst, að kenna námsgreinar eins og tungumál, stærðfræði og náttúru-
fræði. Þegar vel tekst til er þjálfun í víðsýni, umburðarlyndi, samvisku-
semi og heiðarleika og fleiru í þeim dúr innifalin í kennslu flestra náms-
greina. Með þátttöku í félagslífi, sem yfírleitt er stjórnað í samvinnu
nemendafélaga og skólastjórnenda, læra nemendur lýðræðislegar leik-
reglur og fleira því um líkt. Ekkert af þessu þarf þó að fela í sér umræð-
ur um siðferðileg efni. Skólastarfið innrætir nemendum hátterni og við-
horf að mestu án þess að þau gildi sem liggja til grundvallar séu rök-
rædd eða gagnrýnd. Svipaða sögu má segja um siðferðilegt uppeldi á
flestum heimilum.
Alveg eins og börn læra að tala áður en þau læra málfræði hljóta þau
að læra hegðun og siði áður en þau læra siðfræði. En eigi skólarnir í raun
og veru að temja nemendum gagnrýna hugsun um siðferðileg efni geta
þeir ekki látið sér duga að siða þá. Það ætti líka að kenna þeim að ræða
um siðferðileg álitamál, rökstyðja gildismat og siðadóma, gagnrýna skoð-
anir, venjur og siði. Stundum er gagnrýninni umræðu fléttað saman við
kennslu í samfélagsgreinum eða trúarbragðafræðum. Ég sé ekkert því
til fyrirstöðu að það geti skilað góðum árangri. Ég sé heldur ekkert því
til fyrirstöðu að námsefni og kennsluaðferðir af því tagi sem Hreinn
Pálsson íjallar um og kenndar eru við „barnaheimspeki“ geti gegnt þessu
hlutverki. Hér, eins og víðar, eru til fleiri en ein og fleiri en tvær leiðir að
sama marki. Að samfélagsgreinum, trúarbragðafræðum og barnaheim-
speki ólöstuðum held ég samt að kennsla í bókmenntum sé skilvirkasta
og greiðasta leiðin til að glæða með nemendum gagnrýna hugsun um sið-
ferðileg álitamál og þjálfa þá í að rökræða um siðferðileg efni og gera sér
grein fyrir gildismati sínu og viðmælenda sinna.
Við gerum okkur yfirleitt grein fyrir siðferðilegum aðstæðum með því
að segja sögur. Þannig verða einstök verk hluti af heild sem gefur þeim
gildi. Kjaftshögg getur verið hetjudáð eða ofbeldisverk - hvort það er fer
eftir samhengi og þetta samhengi er yfirleitt saga. Séu menn ósammála
um hvernig meta beri verk snýst ágreiningurinn oftast um hvernig segja
skuli söguna af því. Hæfileiki okkar til að fella gildisdóma er nátengdur
hæfileikanum til að segja sögur og tengja atburði saman með frásögn. Ég