Hugur - 01.06.2002, Síða 41
Nýjasta tækni og vísindi
Hugur
ekki.15 Við getum ekki bent á neinn endanlegan, algildan og óbreyt-
anlegan grunn fyrir þekkingarfræðilega greinarmuninn á huglægu og
hlutlægu, en við getum ekki heldur verið án hans. Hvað sem þessu
öllu líður er ekki ljóst hvernig höfnun á verufræðilega greinarmunin-
um á hlutlægu og huglægu gerir raunvísindafræðing ónæman fyrir
afstæðishyggjunni.
Því miður fáum við ekki að kafa dýpra í bókinni í hugtakalegan
grundvöll samhengishyggjunnar né raunvísindafræðinnar. Þess í stað
bendir Steindór á rætur raunvísindafræðinnar í viðbrögðum við
upplýsingu 18. aldar, jafnt í rómantík fyrri hluta 19. aldar og módern-
ismanum sem hafði mest áhrif frá 1880 til 1930. Hann bendir einnig
á áhriíin sem þessir straumar og stefnur höfðu á vísindi, heimspeki
og stjórnmál. Það er áhugavert að sjá hvernig smættarhyggja
upplýsingarinnar fylgdi einstaklingshyggju í stjórnmálum. Steindór
færir enda fyrir því rök að þetta tvennt hangi saman enn þann dag í
dag. Þessi tengsl verða honum svo tilefni til að ræða hugmyndir raun-
vísindafélagsfræðingsins Davids Bloor, en í vísindastríðunum var
hann einmitt eitt uppáhaldsskotmark talsmanna vísindanna.16 Hann
beitir trúarlegri tvískiptingu franska félagsfræðingsins Emiles Durk-
heim á hinu heilaga og hinu veraldlega á raunvísindin. Samkvæmt
greiningu Bloors bera margar tvískiptingar sem notaðar eru um vís-
indi með sér þessa trúarlegu tvískiptingu. Þannig eru raunvísindi,
kenning og grunnraunvísindi heilög en tækni, hagnýting og hagnýt
vísindi veraldleg í nútímasamfélögum. Raunvísindi, og einkum
grunnvísindi, eru sett á heilagan stall, segir Steindór, til þess að hefja
þau yfir hvers konar dægurþras (Genin okkar, bls. 94).
Það er sjálfsagt töluvert til í því að margir baráttumenn vísindanna
notfæri sér trúarlegar tilfínningar og trúarlegan hugsunarhátt sem
15 Áhugaverða greiningu af þessu tagi er að finna í skrifum Ians Hacking um
rökræðustíla (e. styles of reasoning). Sjá grein Ians Hacking: ,,„Stíll“ fyrir
sagnfræðinga og heimspekinga?" Heimspeki á tuttugustu öld: Safn merkra
ritgerða úr heimspeki aldarinnar. Ritstjórar Einar Logi Vignisson og Ólafur
Páll Jónsson (Reykjavík: Heimskringla/Mál og Menning 1994), bls. 241-265.
I upphaflegri útgáfu heitir greinin ,,“Style“ for Historians and Philosophers“
í Studies in History and Philosophy 23 (1992), bls. 1-20.
16 David Bloor telur sjálfan sig til stuðningsmanna vísindanna. Hann vill beita
vísindalegum aðferðum í raunvísindafélagsfræði, en í því felst að hans áliti
að myndun allra skoðana (og þar með hvort vísindamenn hafni eða samþykki
kenningu) skuli skýra með félagslegum hætti, hvort sem þær eru álitnar
sannar eða ósannar. Þetta þýðir að ekki dugar að benda á rök og rannsókna-
gögn til að skýra vísindalega þekkingu á vísindalegan hátt, heldur verður að
athuga hvaða félagslegu öfl liggja að baki hennar.
39