Hugur - 01.06.2002, Page 66
§6 Lokaðir heimar
En kannski var Vattimo að hugsa um afstæðiskenningar eins og þá
sem Thomas Kuhn hefur sett fram um það sem hann kallar ósam-
mælanleika kenninga eða hugmyndaheima í vísindum.50 Þetta er
eins konar málhyggjukenning sem gerir kenningar afstæðar við mál-
ið sem haft er til að setja þær fram, líkt og hjá Carnap. En hún er allt
öðru vísi hugsuð en málhyggja Carnaps.51 Hún er reist á vísindasögu,
en ekki á rökgreiningu málkerfa. Hugmyndaheimar Kuhns eru til
dæmis jarðmiðjukenning og sólmiðjukenning, tvö ólík kraftfræðikerfi
á 17du öld, ylefniskenning og súrefniskenning um bruna á 18du öld.
Samkvæmt afstæðishyggju hans eru slíkir heimar ekki bara ósam-
mælanlegir þannig að þeir verði ekki metnir á neinn sameiginlegan
kvarða. Þeir eru jafnframt - vegna þess að enginn sameiginlegur
kvarði er til á þá - lokaðir heimar.
Þetta atriði á sér hliðstæðu hjá Carnap. Við sögðum í §3 hér fyrir
framan að hjá Carnap þýddi það að táknakerfi er greinanlegt til fulls
að kerfið sé sjálfstætt kerfi, eins og stærðfræði er sjálfstæð. Sjálfstæð-
inu má lýsa svo að hvert táknakerfi sé lokað kerfi frá sjónarhóli ann-
arra kerfa. Þá mætti hyggja að kenningu Kuhns í ljósi frá Quine, og
styðjast við fræði Quines um þýðingar og þýðingabrigði sem drepið
var á í §5.52 En skeytum ekki um þau. Lítum bara á lokaða heima.
Hugmyndaheimurinn sem eðlisfræði Aristótelesar er hluti af á að
vera okkur á 20stu öld lokaður heimur, til dæmis vegna þess, að sögn
Kuhns, að við leggjum allt annan skilning í jafnvel hversdagslegustu
orð sem Aristóteles notar til að láta hugmyndir sínar í ljósi, til dæm-
is grísku orðin sem orðabækur segja að samsvari okkar orðum
„þyngd“ og „kraftur". Orðabækurnar hafa á röngu að standa sam-
kvæmt Kuhn. Það eru engin orð í okkar máli sem samsvara orðum
Aristótelesar. Texti Aristótelesar er því óþýðanlegur á okkar mál og
kenningar hans ósammælanlegar við okkar kenningar. Þar með þarf
50 Thomas S. Kuhn: The Structure of Scientific Revolutions, University of Chic-
ago Press, Chicago 1962 (önnur útgáfa aukin 1970).
51 Hún er oftast rakin til skilnings Kuhns á sumum hugmyndum Wittgensteins
í Rannsóknum í heimspeki.
52 Sbr. líka Þorstein Gylfason: „Sannleikur“.
64