Hugur - 01.06.2002, Page 106
Hugur
Davíð Kristinsson
sagt á hinu viðfelldna máli dyggðanna og hræsninnar: Við er-
um langtum meiri listamenn en við höldum.22
Það að yfirbuga tvíhyggju sannleika og lygi jafngildir því ekki að allt
verði eins, heldur upplausn tvíhyggjuandstæðunnar milli sannleika
og sköpunar. í ósiðrænum skilningi eru allar yrðingar um heiminn, öll
mannleg þekking sköpun. Sigríður (45) vitnar í Nietzsche sem kveð-
ur já við þeirri staðreynd að kenningar hans séu líkt og allar aðrar
kenningar skapandi túlkun:
Setjum sem svo að þetta sé ekki annað en ákveðin túlkun - og
ykkur verður áreiðanlega mjög í mun að hreyfa þeirri mótbáru
- nú, þeim mun betra.23
Árið 1886 hefur þessi fullyrðing eflaust verið mörgum samtímamönn-
um Nietzsches of framsækin. En í upphafi 21. aldarinnar kemst mað-
ur ekki hjá því að spyrja sig: Hvað í ósköpunum ætti kenning Nie-
tzsches að vera annað en ákveðin túlkun? Algild sannindi? Eilíf sann-
indi? Sannleikurinn um hinn sanna heim? Sannleikurinn með stóru
essi? Sannleikur verunnar? Óumdeilanleg sannindi?
Við lestur greinar Sigríðar verður ljóst að henni finnst þessi tíðindi
síður en svo augljós þótt hún bendi á eftirfarandi:
Sannleikur kenninga Nietzsches getur því einungis verið skil-
inn sem áskorun, en ekki sem (al)gildur sannleikur. (47)
Aftur spyr maður sig: Hvað ættu kenningar Nietzsches að vera ann-
að en áskorun? Og hvað í ósköpunum er algildur sannleikur? Þá til-
finningu Sigríðar að túlkun Nietzsches verði að vera meira en skap-
andi túlkun má með sifjafræði sannleikans rekja til gleymskunnar:
Einungis gleymskunnar vegna getur nokkur maður látið sér
detta í hug að hafa höndlað sannleikann.24
Með öðrum orðum: „sannleikstilfinningin er einmitt sprottin af þessu
meðvitundarleysi, einmitt þessari gleymsku.“25 Mennirnir gleyma því
22 Friedrich Nietzsche, Handan góðs og ills, §192, s. 221-222.
23 Sama rit, §22, s. 116.
24 Friedrich Nietzsche, „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi", s. 18.
25 Sama rit, s. 21.
104