Hugur - 01.06.2002, Síða 118
Hugur
Svanborg Sigmarsdóttir
sínum. Þess vegna eru ekki til nein algild réttindi að hans mati, ein-
ungis réttindi Englendinga eða Frakka svo að dæmi séu tekin.6
Jeremy Bentham, faðir nytjahyggjunnar, lýsti mannréttindum upp
úr 1790 sem vit-leysu (e. non-sensical) eða, eins og hann orðaði það,
vitleysu á stultum.7 Hann taldi þau vitleysu vegna þess að tilvist
þeirra gæti aldrei orðið eins áþreifanleg og lög eða stjórnvald. Rétt-
indi væru þar að auki hættuleg vitleysa, erkifjandi laga og stjórn-
valda og launmorðingi öryggis. Hann taldi ástæðurnar fyrir þessu
vera tvenns konar:
1. Tilkall til náttúruréttar græfi undan lögmæti borgaralegra laga.
Ef til eru einhver náttúrleg lög sem enginn þekkir til hlítar, æðri
borgarlegum lögum, er staða borgarlegu laganna ávallt í óvissu.
2. Slík réttindi gætu ekki tryggt það sem stjórnvöld eiga að tryggja,
þ.e. sem mesta hamingju til sem flestra borgara. Með breyttri sam-
setningu hópsins myndi krafan um leiðir til hamingju breytast en
slíkar breytingar gætu verið óframkvæmanlegar vegna kröfunnar um
algildi þessara réttinda.
Þriðja klassíska dæmið um kenningalega fordæmingu mannrétt-
inda er verk Karls Marx „On the Jewish Question“ frá árinu 1843.8
Þar bendir hann á að tilkallið til mannréttinda, til verndar einstak-
lingsins gegn yfirvaldi ríkisins, sé eitt birtingarform þeirrar vald-
níðslu sem á sér stað innan ríkisins og þeirrar firringar sem við erum
öll háð. Firringin sést í því að okkur finnst við ekki lengur eiga heima
í okkar náttúrulega umhverfi sem er í samfélagi manna, heldur er
það orðið okkar helsta ógn. Ef þessi firring væri ekki til staðar væru
réttindi ónauðsynleg þar sem borgarar þyrftu ekki á sérstakri vörn
gegn ríkisvaldinu að halda.
Þessar þrjár klassísku gagnrýnisraddir hafa oft endurómað í gegn-
um tíðina, ásamt þeirri gagnrýni sem allir þrír, Burke, Bentham og
Marx, voru sammála um: Að um of væri einblínt á einstaklinginn og
einstaklingshyggju.
Mannréttindi sem hugtak lifði þessar fyrstu árásir af en lagðist þó
í nokkurn dvala allt þar til Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóð-
6 Edmund Burke 1790. Reflections on the Revolution in France (ritstj. Conor
Cruise O’Brien). Penguin Books, Harmondsworth.
7 Jeremy Bentham 2002. Anarchical Fallacies, grein 2, í Rights, Representation
and Reform: Nonsense upon Stilts and Other Writings on the French Re-
volution (ritstj. Philip Schofield og Catherine Pease-Watkin). Oxford Univer-
isty Press, Oxford.
8 Karl Marx, 1843. „On the Jewish Question" í 1978. The Marx-Engels Reader
(ristj. Robert C. Tucker). W.W. Norton & Company, New York og London.
116