Hugur - 01.06.2002, Page 132
Hugur
Þorsteinn Gylfason
Magnús var í ýmsum prentuðum ritum sínum - einkum greinum sem
hann skrifaði í Minnisverð tíðindi og Klausturpóstinn - hallur undir
hugsunarfrelsi og trúfrelsi.25 Og sjálfstæði dómenda. Hugmyndina
um það virðist hann sækja í „snjalla ræðu“ Svíakonungs en ekki til
Montesquieus eins og við gerum.26 Svo taldi hann frönsku byltinguna
1789, eða að minnsta kosti málstað hinna „vitru og mildu“ byltingar-
manna og síðar Napóleóns, hafa orðið til heilla.
Ég veit ekki hvort þessar fijálslyndu skoðanir Magnúsar eru at-
hyglisverðar hjá konunglegum embættismanni í Danaveldi á önd-
verðri 19du öld, meðal annars vegna þess að ég hef ekki hugboð um
hvernig danskir embættismenn hugsuðu um þær mundir. Ingi Sig-
urðsson hæíir enn í mark þar sem hann segir: „Það er einkar áhuga-
vert athugunarefni, hversu hollusta við einveldið og róttækar hug-
myndir upplýsingarinnar blandast saman í skrifum Magnúsar um
stjórnmál.“27
En hinar frjálslyndu skoðanir Magnúsar, hvaðan sem hann hafði
þær eða hvernig sem hann hugsaði þær upp sjálfur, þurfa ekki að
koma náttúrurétti vitund við. Hugsum til þess að við deilum trúlega
öll þessum skoðunum með honum - um frjálsa hugsun, sjálfstæða
dómstóla og arf frönsku byltingarinnar - án þess að aðhyllast nátt-
úrurétt, ef við höfum þá heyrt hann nefndan.
V. Nytjastefna gegn náttúrurétti
Nú vildi ég mega reyna að skerpa skilninginn á náttúrurétti lítillega,
með því að hyggja að andófi gegn honum. Þar er af nógu að taka á
tuttugustu öld eins og fram er komið, jafnt af hinum fáguðustu fræð-
um réttarheimspekinga og stjórnspekinga sem af næsta hversdags-
legum stjórnmálahugmyndum eins og þeirri að mannréttindi, og þar
með kvenréttindi, séu trúarbrögð.28 Og þar með kannski hvorki betri
né verri en til að mynda bókstafstrú múslíma.
25 Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens, 50.
26 Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens, 61. Sbr. 42 um Montesquieu. Magn-
ús átti þó Anda laganna (L’Esprit des lois) í bókasafhi sínu, segir Ingi á 33.
27 Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensen, 42.
28 Sbr. ágætan fyrirlestur Svanborgar Sigmarsdóttur stjórnmálafræðings í
Reykjavíkurakademíunni á Valentínusarmessu, fimmtudagskvöldið 14da
febrúar 2002: „Eru mannréttindi trúarbrögð?“ Grein Svanborgar: „Mannrétt-
indi: Pólitík eða lögfræöi" sem birt er í þessu hefti er unnin upp úr fyrirlestr-
inum.
130