Hugur - 01.06.2008, Síða 88
86
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
ekki hnöttóttur þó að ég hafi ákveðið að búa til slíkan hlut, óski þess kannski að
hluturinn væri hnöttóttur og haldi jafnvel (ranglega) að hluturinn sé hnöttóttur.
Víkjum nú að villulausum ágreiningi. Ymsar leiðir hafa verið farnar til að gera
grein fyrir ágreiningi en almennt er gert ráð að ágreiningsaðilar staðhæfi eitt-
hvað ósamrýmanlegt eða trúi ósamrýmanlegum staðhæfingum.6 Hér er gert ráð
fyrir slíkri skilgreiningu. Með ósamrýmanlegum staðhæfingum er átt við stað-
hæfingar sem ekki geta báðar verið sannar á sama tíma, þ.e. staðhæfingar sem
eru í mótsögn hvor við aðra. Samkvæmt því þá er um ágreining að ræða milli
Gvendar og Guddu ef staðhæfing Gvendar, „þátturinn er fyndinn“, er ósamrým-
anleg staðhæfingu Guddu, „þátturinn er ekki fyndinn". Ef staðhæfingarnar eru
einhverra hluta vegna samrýmanlegar án þess að við áttum okkur á því þá er
ekki um raunverulegan ágreining að ræða heldur eitthvað sem við getum kallað
sýndarágreining.7
Hugmyndin um að villulaus ágreiningur hljóti að geta ríkt um það hvort hlutur
hafi tiltekinn huglægan eiginleika til að bera hefur talsvert aðdráttarafl. Svo virð-
ist sem Gvend og Guddu greini á um það hvort þátturinn sé fyndinn en jafnframt
virðist það sennilegt að bæði hafi rétt fyrir sér, eða í það minnsta að mögulegt sé
að bæði hafi rétt fyrir sér. Er það ekki bara undir smekk (í þessu tilfelli smekk fyrir
kímni) hvors um sig komið hvort þátturinn er fyndinn eða ekki? En hugmyndin
um villulausan ágreining er nokkuð vafasöm. Hvernig í ósköpunum eiga aðilar
sem aðhyllast ósamrýmanlegar staðhæfingar báðir að geta haft rétt fyrir sér? Það
krefst jú þess að ósamrýmanlegu staðhæfingarnar séu báðar sannar, sem er ekkert
annað en þversögn.
Ein leið sem farin hefur verið til að gera grein fyrir villulausum ágreiningi er að
setja fram kenningar um að sannleikur eða staðreyndir um afmörkuð svið veru-
leikans, eins og það sem við fellum undir smekksatriði, séu afstæð við aðstæður
eða sjónarhorn. Aðrir hafa hafnað þessari leið og jafnframt hafnað því að villulaus
ágreiningur sé mögulegur. En ef villulaus ágreiningur er ekki möguleikur kemur
upp sú spurning hvort hlutir geti þá ekki haft huglæga eiginleika í þeim skilningi
sem lýst var hér að ofan. Lagt var upp með það að Gudda og Gvendur hefðu bæði
rétt fyrir sér og sú hugmynd að fyndni sé huglægur eiginleiki virðist byggja á því
að það hvort skemmtiþátturinn sé fyndinn velti á því hvort Guddu eða Gvendi
finnist hann fyndinn. Þýðir þetta að hlutir geti ekki haft huglæga eiginleika nema
sannleikurinn geti verið afstæður á tilteknu sviði?
I því sem hér fer á eftir mun ég færa rök fyrir því að huglægir eiginleikar hvíli
ekki á möguleikanum á villulausum ágreiningi. En fyrst geri ég betur grein fyrir
þeim kenningum sem þarna liggja að baki.
6 Sjá t.d. MacFarlane (2007), s. 22 og Kölbel (200^), s. 53-54. Hugmyndir um villulausan ágreining
má einnig finna hjá Crispin Wriglit (2001).
7 Hér er fyndni notuð sem dæmi um huglægan eiginleika fyrst og fremst vegna þess að gjarnan
er bent á hana sem dæmi um eitthvað sem er smekksatriði. I raun væri hægt að nota sem dæmi
hvaða eiginleika sem er svo lengi sem fólki finnst sannfærandi að dómar um það hvort hlutir hafi
hann til að bera séu smekksatriði. Satt að segja tel ég ekkert endanlega ljóst hvort fyndni er í raun
huglæg með þeim hætti sem hér er lýst en ég ætla ekki nánar út í þá sálma hér.