Tímarit Máls og menningar - 01.03.1977, Síða 120
Tímarit Máls og menningar
ískum málum þegar hann hlaut umrædd
bókmenntaverðlaun.
Er ekki augljóst mál að þarna er verk-
efni fyrir norræna þýðingarmiðstöð? Er
ekki kominn tími til að bræðraþjóðirnar
sem leiðtogar okkar tala fjálglegast um
í skálaræðum, fái tækifæri til að kynn-
ast hver annarrar bókmenntum, án þess
að gróðasjónarmið misviturra bókaút-
gefenda ráði ferðinni alfarið?
Heimir Pálsson.
ATHUGASEMD
VIÐ UMSÖGN UM BÓK
I þriðja hefti Tímarits Máls og menn-
ingar 1976 ritar Siglaugur Brynleifsson
umsögn um bók sem undirritaður hafði
annast útgáfu á (Jón Þorláksson: Kvæði,
frumort og þýdd. Urval. Rannsóknar-
stofnun í bókmenntafræði og Menning-
arsjóður, 1976). Um ýmis matsatriði
virðist að vísu eðlilegt að sé ágreining-
ur, en ritdómarinn ber mér á brýn sögu-
falsanir, „heldur en ekki hæpnar stað-
hæfingar" og „vafasama fullyrðingu"
(auk einfeldningslegra skoðana og ann-
ars sem er fjarri mér að andmæla). Eg
sé mig því knúinn til að gera svofelldar
athugasemdir:
1. Ritdómari eyðir miklu púðri í um-
ræður um „fóstru“ Jóns Þorlákssonar.
Um það mál sagði ég orðrétt: „Hug-
mynd Jóns Sigurðssonar um að hann
(JÞ) hafi verið á fóstri annars staðar
reynist á misskilningi byggð...“ Við
þetta er neðanmálsgrein, þar sem vísað
var til ævisögu Jóns Þorlákssonar, þeirr-
ar sem Jón Sigurðsson ritaði — og at-
hugana Jóns Þorkelssonar í endurútgáfu
sömu ævisögu árið 1919. Hér er greini-
lega ekki annars kosmr en rekja málið
nánar, fyrst sagnfræðilegur ritdómari
hefur nú vakið „fóstruna" upp úr gröf
sinni. Hugmynd Jóns Sigurðssonar um
þetta fóstur var reist á einu erfiljóði
Jóns Þorlákssonar. Birtist það í heildar-
útgáfunni 1843 (síðari deild, bls. 181
o. á.). Þar talar fyrsta persóna kvæðisins
um fóstru sína. En sé nú kvæðið lesið
til loka (ekki bara vísurnar sem ritdóm-
arinn vitnar til), má finna þar þessi orð:
„Ó, þú kærleikur I... I mér breiskri bú
/í brjósti þú /..(bls. 184). Sannast
að segja þarf ekki mjög magnaða skarp-
skyggni til að sjá að þessi fyrsta persóna
er kvenkyns — og það var Jón Þorláks-
son ekki. Hefði ritdómarinn gætt þessa,
hefði honum kannski hugkvæmst að
fletta líka upp á tilvísuninni til Jóns
Þorkelssonar. Þar er svofelld neðanmáls-
grein við orð JS um fóstruna: „Þetta er
algerður misskilningur. Erfiljóð þessi eru
ort 1818, undir nafni Karítasar dóttur
síra Magnúsar Erlendssonar á Hrafna-
gili eptir Sigríði fóstru hennar...“ (bls.
9). — Sannast að segja hélt ég að rit-
dómurum væri treystandi til að fletta
upp röksemdum ákærðra áður en þeir
vændu þá um rangfærslur og sögufals-
anir. En það ætlar að sannast sem löng-
um hefur verið trú, að erfiðara sé að
kveða niður drauga en vekja þá upp.
2. Mér er ljúft að viðurkenna að ég
hef komist klaufalega að orði á bls. 38
í formála, þar sem ég sagði á þá leið að
flest ef ekki öll þau skáld sem JÞorl
hefði þýtt, tilheyrðu hinum íhaldssamari
hluta upplýsingarstefnumanna. I næstu
málsgrein á undan var ég að tala um
samtímabókmenntir Jóns, og sannast að
segja datt mér ekki í hug að nokkur
gæti lesið út úr þessu að John Milton
(1608—1674) væri upplýsingarstefnu-
maður. En það gerir ritdómari minn án
þess að depla auga.
3. Ritdómari hefur greinilega andúð
106