Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Síða 12
Tímarit Máls og menningar
sem nýja kvennahreyfingin stóð fyrir útgáfu þess. Verk Weiningers er
meira en lítið skrýtin lesning núna, og því meiri furðu sætir hversu
gífurleg áhrif það hafði á sínum tíma á marga og ólíka lista- og mennta-
menn, allt frá August Strindberg til Ludwig Wittgenstein (og þeir voru
líka til sem lásu verkið eftir fyrri heimsstyrjöld, þar á meðal Halldór
Laxness sem fékk það lánað hjá Emil Thoroddsen þegar hann heimsótti
Emil í Dresden haustið 1921, og segir af því í Grikklandsárinu).
Ahrif verksins má ekki bara rekja til djarflegra yfirlýsinga höfundar um
„stöðu konunnar", þau eiga líka rætur að rekja til þess að það birtir
óvenjuskýrt í öfgum sínum mannssýn þess módernisma sem var að verða
til um aldamótin, og þar með líka ógöngurnar sem fylgismenn hans gátu
ratað í. Margt í þessu verki kallast á við stefnur í okkar samtíma, vekur
upp spurninguna um hvert gagnrýni á skynsemis- og rökhyggju geti leitt.
Samt er það líka nátengt staðnum þar sem það varð til: Vínarborg um
aldamótin 1900.
Þverstœbur Vínarborgar
Fáir hafa betur lýst mannlífinu í Vínarborg á árunum fyrir fyrra stríð en
rithöfundurinn Robert Musil í verki sínu Der Mann ohne Eigenschaften
(Maður án eiginleika), og er sá kafli sem birtur er í þessu tímaritshefti í
þýðingu Þorsteins Þorsteinssonar til vitnis um það. Hafi þetta mannlíf
einkennst af einhverju öðru fremur voru það þverstæður. Ein var sú að
þótt sótt sé að þessu samfélagi úr öllum áttum og ríkið sem Vínarborg átti
að heita höfuðborg í sé að liðast í sundur, láta ráðamenn eins og þeir viti
ekki af því og fátt virðist meira aðkallandi en að undirbúa 70 ára
krýningarafmæli Franz Jósefs keisara árið 1918. Sá karl var reyndar
einhver afturhaldssamasti þjóðhöfðingi álfunnar og hafði komist til valda
eftir ósigur byltingarhreyfingarinnar 1848. Franz Jósef byggði upp skrif-
stofuveldi sem tæpast átti sinn líka utan Rússlands, treysti vald sitt með
sérlega íhaldssömum her, beitti ritskoðun óspart og mátti vart á milli sjá
hvort hann hataðist meira við lýðræði eða allar þær tækninýjungar sem
litu dagsins ljós um og upp úr aldamótum. Víst er að hann mátti ekki sjá
síma, bíla, rafmagn né vatnssalerni, svo einhver dæmi séu tekin.
En Franz Jósef drottnaði ekki yfir neinu hefðbundnu aðalsveldi. í
Vínarborg urðu frjálslynd borgaraöfl ráðandi á sjöunda áratug 19. aldar,
reyndar ekki af eigin rammleik heldur vegna þess að framsókn Bismarcks
hafði veikt fyrri ráðastétt mjög. Þessir borgarar voru öðru fremur skyn-
samir, siðmenntaðir og ríkir, en veldi þeirra stóð ekki mjög traustum
fótum. 1873 varð alvarleg efnahagskreppa sem borgarbúar voru lengi að
jafna sig eftir, velmegunin virtist standa á brauðfótum. Borgarastéttinni
274