Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 22
Tímarit Máls og menningar
þessi orð létií í eyrum einsog það sem enn er öldungis ókannað og
fjarlægt. Menn leyfðu sér munað; en ekkert í líkingu við öfgakennda
fágun Frakka. Menn stunduðu íþróttir; en ekki með sama æðinu
og Englendingar. Ogrynni fjár var veitt til hersins; en þó aldrei
meira en svo að tryggt væri að ríkið yrði áfram næstveikast
stórveldanna. Höfuðborgin var líka ögninni minni en allar aðrar
stærstu borgir heims, en samt nokkru stærri en nægði tilað hún gæti
kallast stórborg. Og um stjórnarhætti ríkis þessa mátti segja að þeir
voru upplýstir og lítið áberandi, kostað var kapps að slæva varfærn-
islega allt sem einhver broddur var í, enda var stjórnin í höndum
fullkomnasta skrifræðis í Evrópu sem aðeins eitt varð fundið til
foráttu: það leit svo á að snilligáfa og frumleg framtakssemi ein-
staklinga, sem ekki voru til slíkra forréttinda bornir eða höfðu til
þeirra umboð frá ríkinu, væri argasta framhleypni eða oflátungs-
háttur. En hver ætli kærði sig um að láta einhvern Pétur eða Pál
taka framfyrir hendurnar á sér! Og í Kákáníu mátti auk þess alltaf
treysta því að það var snillingurinn sem var álitinn ódámur en ekki
ódámurinn snillingur einsog verða vildi annarsstaðar.
Já víst mætti tína til margt furðulegt um þessa horfnu Kákáníu!
Hún var tilaðmynda keisara-konungleg en einnig keisara- og kon-
ungleg; hver hlutur og hver maður bar þar annaðhvort táknið k.k.
eða k. og k., en mikil launvísindi þurfti þó tilað kunna á því full skil
hvenær kalla skyldi menn og stofnanir k.k. og hvenær k. og k.
Ríkið hét á prenti Austurrísk-Ungverska Einveldið en í munni
manna Austurríki; með öðrum orðum nafni sem það hafði lagt
niður með hátíðlegum eiðum en hélt þó eftir sem áður í öllum
tilfinningamálum — til marks um að tilfinningar eru ekki síður
mikilvægar en þjóðaréttur og að alvara lífsins rúmast ekki í reglu-
gerðum. Stjórnarskrá ríkisins var frjálslynd en því var stjórnað
einsog klerkaveldi. Því var stjórnað einsog klerkaveldi en fólk var
frjálslynt í lifnaðarháttum. Allir borgarar voru jafnir gagnvart
lögunum, en reyndar voru ekki allir borgarar. Þarna var þing sem
notfærði sér frelsi sitt af slíku offorsi að það var sjaldnast látið
starfa; en svo var líka til lagagrein um neyðarástand sem heimilaði
að stjórna án þingræðis, og þegar allir voru farnir að una einveldinu
harla vel brást ekki að krúnan fyrirskipaði að nú skyldi aftur taka
upp þingræðisstjórn. Atburðarás af þessu tagi var daglegt brauð í
284