Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Qupperneq 39
Loftur á „hinu leiksvidinu“
að ógæfusömum manni . . . En þér er um megn að hindra mig frá því að
lifa og vinna í einveru . . .“ (58)
Steinunn sér að orustan er töpuð og kemur með hina óhugnanlegu
hótun um hatursbarnið, sem er með andlit alveg eins og Loftur „nema
afskræmt af syndum og ástríðum“ (58-59). Lofti verður mjög illa við, enda
er falið í tvífaraminninu djúpstæður ótti og ógnun af því að ef til er annar
sem er alveg eins og maður sjálfur, getur hann hvenær sem er gert mann
ónauðsynlegan, tekið við hlutverki manns.17
I lokauppgjöri þeirra Steinunnar stendur Loftur frammi fyrir konu sem
er ógnandi, hættuleg og hryllileg. Hættan kemur allt í einu úr annarri átt
en frá föðurnum, hættan stafar frá móðurinni sem hótar að tortíma
honum, móðurinni sem hann óttast og þráir um leið. Þessi klofningur
kemur í ljós þegar Steinunn hótar að verða sú hóra sem hann gerði hana að
með kynferðislegri niðurlægingu þegar hann sagði henni frá því þegar
hann „sá“ hana fyrst. Hún sver að elska alla aðra en hann og Loftur bregst
svona við:
LOFTUR (í ákafri geðshræringu): Þú lýgur! (Gripur í handlegginn
á henni). Þú elskar engan annan en mig. (59)
Þetta má túlka sem endurlifun á frumstæðu angistarópi litla barnsins
sem er hafnað af móðurinni, hún elskar það ekki lengur. Og morðið á
Steinunni er framhaldið á þessu.
Helge Toldberg fjallar um þetta atriði í bók sinni og segir:
Áður hefur hann (þ.e. Loftur) . . . flett upp í bók af handahófi og
fundið viðvörun gegn því, sem hann hyggst fyrir. Bókin, sem hann
þrífur, er Odysseifur, og staðurinn sem hann kemur ofan á: fundur
Odysseifs og móður hans í dauðaríkinu. Móðir Lofts sjálfs er líka
dáin, og það hlýtur að vera tengiliður milli hinna fremur litlausu
erinda og þeirrar galdraathafnar, sem þau styrkja Loft í að fram-
kvxma. (leturbreyting mín) — 18
í erindunum sem Loftur les, er sagt frá því að móðir Odysseifs drekkur
fórnarblóðið, þekkir Ódysseif og talar til hans. En í framhaldinu í
Ódysseifskviðu segir hún syni sínum hvernig ástatt sé í Iþöku og að hún
hafi dáið úr söknuði og áhyggjum yfir fjarveru hans. Ódysseifur ætlar þá
að faðma móðurina en hún er „skuggi eða draumur" og smýgur úr
greipum hans, ónálganleg, dáin.19
Morð Lofts á Steinunni má túlka sem táknrænt móðurmorð, hún hefur
hafnað honum, er dáin honum og hann fullkomnar verkið, aðskilnaðinn.
Morðið hefur þannig djúpar goðsögulegar skírskotanir, meðal annars til
Orestes-goðsögunnar þar sem móðurmorðið er táknrænt fyrir sigur föð-
301