Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 51
Strindberg og Freud
lýkur hann upp dyrum leyndardómsins, en uppgötvar að hinn innsti
leyndardómur er tómið. Hingað og ekki lengra nær vitneskjan sem textinn
býr yfir — hingað og ekki lengra má spyrja því tómið er dauðinn og
ekkertið, annað hvort steypist maðurinn í dauðann eða hafnar aftur í
endurtekningunni, hversdagsleikanum og ófullkomleikanum. Það hafa
skáldin alltaf vitað og skáldið í Draumleik fær einmitt þetta svar þegar
hann spyr dótturina í hverju Friður og Hvíld felist. „Þey, þú mátt ekki
spyrja um fleira, og ég má ekki svara!“ svarar hún.
Og allt heldur áfram að versna, þar til við komum að því versta. A
einum stað segir málfærslumaðurinn við dótturina: „Nú hefurðu séð það
mesta, — en það versta hefurðu ekki enn þá reynt." „Hvað getur það
verið?“ spyr dóttirin og fær svarið: endurtekningin, að fara til baka, byrja
á nýjan leik. Að fylla aftur og aftur upp í tómið, þó að maður viti ósköp
vel að það muni aldrei takast, þótt hver ný endurtekning aðgreini sig frá
hinni fyrri með því einu að vera ný tilraun. Þetta Sysyfosar-strit er í
Draumleik táknað með móðurinni og Kristine, sem ástundar þá iðju að
fylla upp í sprungur og glufur með þeim afleiðingum að það verður alltaf
erfiðara að draga andann — fá lífsloft.
Það segir sjálfsagt meira en margt annað um skyldleikann á milli
vitneskju sálgreiningarinnar og innsæis skáldsins að á sama tíma og
Strindberg var að skrifa Draumleik gerði Freud „endurtekninguna" að
lykilhugtaki í sálgreiningunni: endurtekninguna til að slá dauðanum og
tóminu á frest, endurtekninguna sem kveikir bæði vellíðan og vanlíðan;
vellíðan af því að við freistum gæfunnar, og vanlíðan af því að okkur
mistekst; endurtekninguna sem er óhjákvæmileg og um leið tilviljana-
kennd, óhagganlegt lögmál og leikur.
Hugtakið „endurtekning“ er skylt því þegar Freud talar um kastrasjón
(vönun), hina þrúgandi tilfinningu um missi eða vöntun sem leynist í
hverjum ávinningi, eða eins og segir í Draumleik: „Við hvað á hann með
ávinningi mínum?“ spyr dóttirin. Hér er kominn aftur „ávinningur"
Strindbergs, hin unga Harriet Bosse, sem hann varð að afsala sér á sama
hátt og allar aðrar persónur leiksins hafa þurft að fórna sínum dýrustu
djásnum. En þó er eitt sem skáldið lætur ekki af hendi, innsæi sitt og
píslarvætti sem er eitt og hið sama.
Aths. höfundar: Sama dag og fundurinn var haldinn þar sem erindi þetta var flutt
benti Árni Sigurjónsson á að til er grein um sama efni, draumtúlkunina á
Draumleik. Áhugasömum lesendum skal bent á að greinin er eftir Evert Sprinc-
horn og heitir: „The Logic and A Dream Play“ (í greinasafninu Strindberg. A
Collection of Critical Essays. Twentieth Century Views 95. NY 1971).
313