Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 67
„Ljóðafugl lítinn ég geymi ...“
Sama heimild lýsir Vár þannig:
Hún hlýðir á eiða manna og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita
þau mál várar. Hún hefnir og þeim er brigða.14
Inngangsljóð þessarar bókar Huldu er óður skáldkonunnar til dísar
sinnar. Ljóðið bendir til þess að hún hafi ruglað ásynjunum saman og eigi
við Vár, þ.e.a.s. ásynjuna sem hlustar á eiða manna:
Þú bjarta dís, er býr við norðurs heiði,
þú blessuð Vör, er hlýðir hverjum eiði.
Þig eina jeg að leiðarlokum kýs,
þó Ijúf sje mörg og fögur himindís.
Hlutverk þessarar dísar er í grundvallaratriðum ólíkt hlutverki „kvæða-
dísar“ Páls Olafssonar. Samband skáldkonunnar og Várar er ekki ástar-
samband og skáldskapurinn því ekki ávöxtur ástar þeirra. Gyðjan hlustar
á skáldkonuna, á trúnað hennar og huggar hana. Milli þeirra er engin
spenna heldur sýnir skáldkonan gyðjunni takmarkalausa undirgefni: „Allt
reyndist bezt, er ráð þín lágu til.“ Hún lýsir skáldskap sínum sem löngu,
erfiðu og einmanalegu ferðalagi sem lýkur þegar hún nær til Várar:
Senn styttist leið — í ljóma heiðum skín
þinn lundur, Vör, og kallar mig til sín.
Ein hef jeg gengið urð og flugabrúnir,
ein hvílst um nótt og lesið stjörnurúnir
og hlustað alein þegar þögn gaf svar;
einmana vind um vængi sterka beðið,
sem völva ein á nóttu ljóð mín kveðið
er æfin blakti, eins og ljóssins skar.
Eðli sínu samkvæm mun Vár geyma orð skáldkonunnar og koma í veg
fyrir að aðrir heyri þau. Samband þeirra tveggja getur því ekki orðið frjótt
fyrir skáldkonuna, heldur leiðir það hana til þagnar eða jafnvel dauða: „I
rann þinn hreinan inn jeg deyja vil.“
Stór hluti ljóðanna í Þú hlustar Vör eru ástarljóð að yfirborðsgerð. Vel
má vera að Hulda sé hér að yrkja ástarljóð til raunverulegs karlmanns (eða
karlmanna). Hvort svo er eða ekki skiptir ekki meginmáli. Það sem mér
finnst merkilegast við ástarljóðin er að í þeim skapar Hulda, með mynd
elskhugans, n.k. karlkyns skáldskapargoð og í ástarsambandi við það tekst
konunni að öðlast það frelsi sem gerir hana færa um skáldlega tjáningu:
329