Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 69
„Ljóðafugl lítinn ég geymi ...“
Fyrri hluta Þú hlustar Vör lýkur á stöku sem tengist ástarljóðunum á
undan:
Ofstór reyndist ástin mín
öllu, er jörðin gefur.
Jeg ætla að bíða — bíða þín
bak við allt, sem tefur. (bls.60)
I seinni hluta bókarinnar sjáum við svo að ástin sem var skáldkonunni
uppspretta skáldlegrar tjáningar og frelsis reyndist sannarlega of stór. Hún
afneitar henni en einbeitir sér í staðinn að dýrkun innilokunarinnar og
öryggisins sem hún veitir, tryggðin hefur komið í stað frelsisins:
Ef lífið launar nokkuð
þá launar það tryggð.
Sje nokkuð hreint í heimi
er það heimilisbyggð. (bls. 72)
I kaflanum Arineldur kemur beinlínis fram að við arineld innan veggja
heimilisins eru sálir mannanna frjálsar:
Frelsaðar þær una
við eldinn þann,
sem eins og fórnarlogi
frá örófi brann. (bls.73)
Frelsið felst ekki lengur í hreyfingu, flugi, heldur algjörri kyrrstöðu við
heimiliseldinn sem mun verða óbreyttur um alla framtíð eins og hann
hefur verið frá örófi alda.
I Söng starfsins er svo slegið á svipaðar nótur hvað varðar dýrkun á
skyldurækni og innilokun og afneitun þeirrar frelsisþrár og vitundar um
gerandahlutverk sem skáldi er nauðsynleg. Þetta sést best ef yrkisefnin eru
skoðuð, en flest ljóð bókarinnar eru ýmis konar tækifæriskvæði þar sem
Hulda virðist sjaldnast yrkja af innri þörf, frekar að hún yrki fyrir aðra.
I öðrum ljóðum bókarinnar lofar skáldið systurnar dyggð, skyldurækni
og innilokun. í ljóðinu „Eitt er nauðsynlegt“ (bls. 36) leggur Hulda út af
sögu Biblíunnar um frelsi kvenna til að velja sér hlutskipti, sögunni af
þeim systrum Mörtu og Maríu (Lúk.10:38-42). Túlkun Huldu á sögunni
er í andstöðu við túlkun ritningarinnar. Þar sem ritningin leggur áherslu á
frelsi Maríu til að velja sitt hlutskipti sjálf er samúð ljóðsins með Mörtu,
sem er þreytt og mæðist í mörgu:
331