Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Síða 82
Tímarit Máls og menningar
stundarkorn til að átta sig. Hann stansaði nokkrum sinnum til að
spyrja vegfarendur hvar hótelið væri. Illfært var um götur bæjarins
og það tók þau rúmlega fimmtán mínútur að komast til hótelsins,
sem þó var örskammt frá (að sögn vegfarendanna), eftir ótal króka
og útúrdúra. Hótelið leit ekki út fyrir að vera neitt sérlega vistlegt,
en þetta var eina hótelið í bænum og ungi maðurinn var orðinn
þreyttur á akstrinum. „Bíddu eftir mér hérna,“ sagði hann og steig
út úr bifreiðinni.
Um leið og hann steig út úr bifreiðinni varð hann auðvitað hann
sjálfur aftur. Honum féll allt í einu illa að vera kominn svona á
óvæntan stað; sérstaklega af því að enginn hafði neytt hann þangað
og í rauninni hafði hann aldrei ætlað þangað. Hann nagaði sig í
handarbökin fyrir kenjarnar, síðan ákvað hann að hætta að hugsa
um þetta: herbergið biði þeirra til morguns, og hvað var svo sem að
því að halda upp á fyrsta frídaginn þeirra með eilitlu hliðarhoppi?
Hann gekk í gegnum matsalinn — fullan af reyk, hávaða og fólki
— og spurði um gestamóttökuna. Honum var bent innst í ganginn,
við stigann, þar sem þrifleg ljóska trónaði framan við þunghlaðna
lyklatöflu; það var rétt svo að hann fengi síðasta herbergið sem
laust var.
Þegar unga stúlkan var orðin ein losnaði hún líka úr hlutverkinu.
Hún var alls ekkert ósátt við að þau hefðu sveigt af leið. Hún
treysti vini sínum nægilega til að þurfa ekki að velta fyrir sér öllum
hans gerðum. En skyndilega hvarflaði að henni að aðrar ungar
konur sem hann hafði hitt hefðu beðið eftir honum í þessari bifreið
rétt eins og hún á þessari stundu. Skrítið, tilhugsunin olli henni
ekki minnstu óþægindum; hún brosti með sér þegar hún hugsaði til
þess að í hans augum væri hún ókunnug kona, léttlynd og kæru-
laus, ein þessara kvenna sem gerðu hana svo afbrýðisama; hún
þóttist nefnilega hafa snúið á þær; fundið leið til að afvopna þær;
geta loks veitt vini sínum það sem henni fannst hún ekki hafa getað
veitt honum áður: áhyggjuleysið, hreinskilnina, frelsið; hún fann til
sérstakrar velsælu þegar hún hugsaði til þess að hún ein væri fær um
að setja sig í spor allra hinna kvennanna og að þannig gæti hún (hún
ein) sölsað undir sig gjörvalla athygli vinar síns og gleypt hana eins
og hún legði sig.
Ungi maðurinn opnaði dyrnar og bauð ungu stúlkunni að ganga
344