Tímarit Máls og menningar - 01.03.1997, Síða 56
JÓN PROPPÉ
eða vildi að það þýddi. Þar með tekur hann áhættu, því orð eru dýr og þegar
maður hefur einu sinni sleppt þeim frá sér er engin leið að taka þau aftur.
Aðrir geta þá höndlað þau og beitt þeim eins og þeim sýnist. Undir þessi
örlög fellur listaverkið líka þegar það er orðið hluti af orðræðunni, lista-
mönnum, lesendum og jafnvel gagnrýnendunum sjálfum til mikillar ar-
mæðu.
Það hefur lengi vafist fyrir mönnum að skilgreina hlutverk gagnrýnand-
ans í list og því kann að virðast sem verið sé að bera í bakkafullan lækinn
með því að flækja málið enn frekar og segja, eins og hér hefur í raun verið
gert, að við þurfum líka að skilgreina hlutverk listaverksins í gagnrýninni.
Samt er það einmitt þetta sem við þurfum að gera ef við ætlum að skilja
samhengi listanna og gagnrýninnar orðræðu.
Oftast viljum við hugsa okkur gagnrýni sem eins konar undirleik við
laglínu listanna, eitthvað sem tekur upp og fýllir út í það sem listamaðurinn
hefur dregið upp. Það var Adorno sem batt þessa hugmynd í kenningu:
Gagnrýni túlkar anda listaverksins á grundvelli þeirra þátta sem í
verkinu birtast, hún stillir þessum þáttum saman andspænis andan-
um eins og hann birtist fyrir þeim. Þannig vekur gagnrýnin sannleika
sem er handan við fagurfræðilega samsetningu. Þess vegna er gagn-
rýnin nauðsynlegur stuðningur listaverkinu. Gagnrýnin dregur fram
sannleiksinnihald listaverkanna í anda þeirra .. ?
Þessi orð ylja gagnrýnendum þegar heimurinn hefur snúið við þeim baki,
en því miður er hér frekar um markmið eða hugsjón að ræða en raunveru-
leika. Samband listaverks og gagnrýninnar er í raun miklu óræðara. Við
sjáum að þótt listaverkin séu auðvitað ávallt tilefni gagnrýninnar umræðu,
kveikjan að umræðunni og það sem við viljum að gagnrýnin vísi ávallt til,
þá fer það oft svo að listaverkið virðist næstum óþarft. Og ef við skiljum
gagnrýni svo að orðið nái til allrar listapressunnar, til allrar listaumræðu í
öllum miðlum, þá virðist hlutverk listaverksins enn óverulegra. Lítil listsýn-
ing sem aðeins örfáir sjá getur jafnvel orðið tilefni þvílíkrar umræðu að hver
pólitíkus mætti teljast fullsæmdur af ef verk hans hlytu slíka athygli. Ekki svo
að skilja að verið sé að hafna listaverkinu —- eða öllu heldur starfi listamanns-
ins. Það er bara svo að umfang og útbreiðsla gagnrýninnar er oft margfalt
meiri en listaverksins sjálfs.
Listamenn geta aðeins brugðist við þessu með því að viðurkenna hvernig
komið er og reyna að gera ráð fyrir þessu í verkum sínum og starfi. Þeir verða,
með öðrum orðum, að læra að nýta sér stöðuna. Eins og Hannes Lárusson
sagði á umræðufundi listamanna og safnstjóra fyrir nokkrum árum, þá
46
TMM 1997:1