Tímarit Máls og menningar - 01.03.1997, Side 101
HIÐ SANNA RÍKI FRELSISINS
sér að raungera eitthvert „eiginlegra“ frelsi innan þess samfélags. Fyrst
verður að umbylta samfélaginu og skapa efnisleg skilyrði fyrir hið „sanna
ríki frelsisins“, eins og Marx orðar það í Auðmagninu. Þetta er skýringin á
því að Marx ástundar ekki „innri gagnrýni“ á kapítalískt samfélag, þ.e. snýr
ekki þeim siðferðilegu hugtökum sem það réttlætir sig með gegn því sjálfu.
Borgaralegt samfélag getur verið réttlátt samkvæmt sínum eigin mælikvörð-
um, þótt það sé í grundvallaratriðum óréttlátt á mælikvarða sameignarsam-
félagsins vegna þess að það nærist á arðráni auðvaldsstéttarinnar á
verkalýðnum.21 Þetta er líka meginástæða þess að Marx notar ekki siðferði-
leg hugtök, því að þau væru jafnan skilin á forsendum hins borgaralega
samfélags. Hann verður því að umbreyta merkingu siðferðilegra hugtaka í
samræmi við athuganir sínar á félagslegum veruleika og þá sýn sem hann
hefur á sögulega framvindu.
IV
Hvað ljósasta dæmið um slíka umbreytingu siðferðilegra hugtaka í ritum
Marx er umfjöllun hans um réttlæti í gagnrýninni á Gothastefnuskrána.22
Þar talar hann um nauðsyn þess að brjótast út úr þröngum sjóndeildarhring
hins borgaralega réttar og móta nýja réttlætishugsun.23 Inntakið í hinum
borgaralega hugsunarhætti er jafn réttur sem leiðir í reynd til ójafnaðar
vegna þess að ekkert tillit er tekið til sérstöðu einstaklinga, því „væru þeir
ekki ójafnir væru þeir alls ekki einstaklingar" (319). Á fýrsta stigi sameign-
arþjóðfélagsins yrði þessum rétti framfylgt út í æsar og það þýðir að allir yrðu
mældir á sama mælikvarða og frá sama sjónarmiði. Horff yrði framhjá því
að einn verkamaður er kvæntur og á börn en annar er ókvæntur og barnlaus.
„Láti þeir báðir sömu vinnu í té og falli því jafnmikið í hlut þeirra beggja úr
neyzluforða þjóðfélagsins, þá fær annar raunverulega meira en hinn [. . .].
Til þess að forðast þessa ágalla yrði rétturinn að vera ójafn en ekki jafn“ (320).
Á hinu „æðra stigi sameignarþjóðfélagsins“ mun þessi ójafnaðarregla verða
inntakið í réttlætinu sem tekur mið af sérhverjum einstaklingi og siðferði-
legum jöfnuði þeirra: „Hver og einn vinnur það, sem hann er hæfur til og
fær í sinn hlut það, sem þarfir hans krefjast" (320).24
Aristóteles hafnaði líka því sem hann nefndi stærðfræðilegt réttlæti, þar
sem allir fá jafnan skerf, og taldi að hver og einn ætti að uppskera samkvæmt
verðleikum. Með svipuðum hætti telur Marx að hver og einn eigi að fá það
sem hann þarfnast. I báðum tilvikum er það réttlætismál að taka sérstakt
tillit til einstaklingsins hverju sinni en beita ekki ósveigjanlegu lögmáli. Þetta
er einkenni vináttu og bræðralags sem yfirstígur þær takmarkanir sem
ópersónulegum reglum eru settar. í nútímavelferðarsamfélagi er raunar beitt
TMM 1997:1
91