Tímarit Máls og menningar - 01.03.1997, Page 42
GUNNAR ]. ÁRNASON
Krafan um að meta sérhvert verk út frá eigin forsendum, að setja sig inn
í hugsunarhátt og siði sérhvers lítils „samfélags“ sem listamenn lifa og
hrærast í, getur haft lamandi áhrif á dómgreind gagnrýnandans, því það er
alltaf hægt að lýsa sérhverju listaverki út frá einhverjum forsendum, ein-
hverri sýn, sem gerir það fullgilt innan ótilgreinds ramma, sem einangrar
verkið frá öllum ytri samanburði. Staðan sem kemur upp er ekki ósvipuð
þeirri sem Hörður Ágústsson lýsir, að því leyti að við stöndum frammi fyrir
ótal framandi tungum sem við þurfum að tileinka okkur til að meta lista-
verkin og sérhver ný tunga gerir nýjar kröfur um skilning. En hér er staðan
sú að það er enginn kjarni, engin miðja, sem sameinar allar hinar ólíku
tungur. Framandleiki tungunnar (eða formið, stíllinn, framsetningin) verð-
ur ekki aðgreint frá inntaki verksins og þannig eftirsóknarverður þáttur í
upplifun á því. Þannig hefur list framandi menningarsvæða, eins og t.d.
frumbyggja Ástralíu, og jaðarsvæða eins og Islands, öðlast skammvinnar
vinsældir meðal þeirra þjóða sem hafa verið ráðandi öfl í þróun nútíma-
myndlistar, ekki endilega til að auka skilning þeirra á list þessara svæða,
heldur til að mikilfengleiki þeirra eigin menningar geti endurspeglast í því
sem er framandi og fyrir utan þeirra sjóndeildarhring.
Á hinum pólnum getur hin alþjóðlega sýn á íslenskt listalíf komið fram í
mikilli dómhörku, þar sem hið alsjáandi gagnrýna auga, sem er á sífelldu
flökti um víðar lendur, sér allt sem er íslenskt sem svo agnarsmátt og
ómerkilegt, alltaf skrefinu á eftir því sem gerist annars staðar. Þetta getur
komið fram í kaldhæðni þess sem horfir á úr fjarlægð og sér allt sem
vanmáttuga tilburði, sem þykist hafa séð allt og lætur aldrei koma sér á óvart.
Ef við drögum þetta örstutt saman þá sáum við að á meðan nútímamynd-
list er að festa sig í sessi á nýnumdu jaðarsvæði þá er rík tilhneiging til að líta
á hana út frá persónulegri sýn, sem þýðir að allt sem þarf til að meta listaverk
að verðleikum sé til staðar, þótt tjáningarformið sé framandi. Eftir því sem
samskipti við aðrar þjóðir aukast þá verður ríkari tilhneiging til að líta á
jaðarsvæðið sem órofa hluta af alþjóðlegu, óstaðbundnu listalífi. í hvaða
aðstöðu er þá gagnrýnandinn í dag? Hann getur ekki látið sem umheimurinn
sé ekki til, en hann getur heldur ekki látið sem það skipti engu máli hvar
hann er niðurkominn í listaheiminum. Hvert á hann þá að snúa sér? Það er
engin einföld lausn á þessu, sýnist mér, nema kannski sú yfirborðskennda
lausn að þykjast ekki tala fyrir munn neins nema sjálfs sín. En spurningin er
hvort það sé yfirleitt ástæða til að leita að „lausn“ á þessu „vandamáli", hvort
þetta sé nokkuð óeðlilegt við slíka stöðu? Getur ekki hugsast að þetta sé
nokkuð dæmigert fyrir þá aðstöðu sem gagnrýni er í yfirleitt — að vera á
báðum áttum? En ef við viljum líta á þetta sem vanda sem gagnrýnendur
verða að glíma við, þá getum við a.m.k. huggað okkur við að þetta er
32
TMM 1997:1