Tímarit Máls og menningar - 01.03.1997, Qupperneq 75
ÞÖGNÍN í ORÐUNUM
þeim. I sérhverju hugtaki felst þannig merkingarfrestun og margir merking-
armöguleikar, þöglir. Við fáum margræðnina í kaupbæti með orðunum, við
getum aldrei tjáð nákvæmlega og eingöngu það sem við hefðum kosið og sá
sem við tölum við mun aldrei skilja nákvæmlega hvað það var sem við
sögðum.7 Pælingar af þessu tagi um tungumálið ganga eins og rauður
þráður gegnum allar bækur Jakobínu Sigurðardóttur.
Hjá alþýðufólkinu, verkafólkinu og bændunum, sem hún lýsir í smásög-
um eins og „Stellu“ í Púnktur á skökkum stað (1964), Dœgurvísu (1965) og
Lifandi vatninu (1974) stendur fólk varnarlaust frammi fýrir tungumálinu.
Þögnin hleðst upp og verður ærandi. Fólkið segir ekki það sem það langar
til að segja og langar ekki til að segja það sem það segir. Orðin færa
merkinguna aðeins fjær og það skilur ekki hvert annað. Og hvar á að hefja
hina sameiginlegu baráttu ef tungumálunum hefur verið sundrað eins og
Guð gerði til að lækka rostann í mönnum sem héldu að þeir gætu byggt
Babelsturn sem næði til himins:
Og Drottinn mælti: Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál
og þetta er hið fýrsta fýrirtæki þeirra. og nú mun þeim ekkert ófært
verða, sem þeir taka sér fýrir hendur að gjöra. Gott og vel, stígum
niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar
annars mál.8
Þó að Guð vilji ekki að mennirnir skilji hver annan, vill skáldið og listamað-
urinn Jakobína Sigurðardóttir þýða eitt tungumál yfir á annað í og með
verkum sínum, leita að skilningi og merkingu í torskildum málheimi, fullum
af hálfkveðnum vísum. Eins og bandaríski bókmenntafræðingurinn Shos-
hana Felman bendir á felur slík þýðing í sér að sá sem þýðir tekur skrefið yfir
í hið óþekkta, tungumál hinna, og gerir það að sínu og sig að því: „ ... það
sem er í húfí á leið eins tungumáls til annars er síður þýðingin í sjálfri sér en
þýðingin á sjálfum sér— yfir í framandleika tungumálsins." 9
Sigmund Freud gengur svo langt að kalla þekkingarþrá mannsins „hvöt“
og líkir henni þar með við hvatir sem eiga upptök í líkamanum en fá form
og viðfang í sálarlífmu.10 Við þráum merkingu, svör, sögur af því að það er
eitthvað sem ekki gengur upp, eitthvað sem vantar. Það vantar merkingu og
Salóme leitar þessarar merkingar í sögu sinni. „Ég sagði ekkert“ segir sögu-
konan í skáldsögunni / sama klefa og heldur áfram:
Sala — Salóme var ekki að tala við mig fremur en eitthvað annað eða
einhvern annan. Ef til vill var hún að tala við snjóinn, þennan eilífa,
endalausa snjó hvert sem litið er. — (89)
Sala er að tala við snjóinn og snjórinn er eins og hið óskrifaða, hvíta blað. A
hinu óskrifaða blaði rúmast allar sögur eins og öll hljóð felast í þögninni og
TMM 1997:1
65