Tímarit Máls og menningar - 01.09.1998, Blaðsíða 71
Richard Wagner
Sendill
Sanne er í steininum, segir Steffí.
Sanne, segi ég.
Hva, ertu búin að gleyma henni strax, segir Steffí. Ég heyri hvernig hún
herðir á tali sínu. Henni mislíkar svar mitt.
Um hvað ertu að tala, segi ég ringluð í símann. Ég sit á rúminu og dreg
hnén upp að höku. Merki um vandræðagang.
Nú, partíið. í húsinu við Treptower garðinn, í síðasta mánuði.
Já, það, segi ég.
Þessi rauðhærða, segir Steffí. Sanne. Þið voruð heillengi að spjalla. Ég hélt
að þér fyndist hún svo fín.
Já, mér fannst það. Nú man ég þetta allt. En vandræðalegt.
Auðvitað, Steffí, segi ég, auðvitað finnst mér hún fín stelpa.
Mrrr, Steffí er fúl. Hún heldur að ég sé algjör tækifærissinni. Mér líður eins
og raddlausri kryddpíu.
Af hverju er hún í steininum, segi ég. Ég segi þetta til að ná áttum. Sný mér
við, ligg á maganum. Það er ekki góður dagur í dag. Nóttin dróst á langinn.
í London, segir rödd Steffíar. í London. Hún endurtekur það. Eins og ég
hefði kannsi ekki verið að hlusta.
Ég veit hvar London er, segi ég snefsin.
Það var og, ansar Steffí. Stundum mætti halda að þú vissir ekki nokkurn
skapaðan hlut.
Til hvers ertu þá að tala við mig, flýti ég mér að segja. Þetta er okkar tónn.
Okkar sameiginlegi tónn. Við erum vinkonur.
Hún var tekin föst á flugvellinum. Á Heathrow.
Á flugvellinum, segi ég. Hvað var hún að gera á flugvellinum?
Ég heyri að Steffí stynur hinum megin á línunni.
Hvílík della, segi ég, gleymdu því.
Hættu þessu, er æpt úr símtólinu.
Ég er hætt, segi ég og lyfti hendinni við ímyndaðan eiðstaf eins og þegar
maður var krakki.
TMM 1998:3
www.mm.is
69