Tímarit Máls og menningar - 01.09.1998, Blaðsíða 39
Christa Schmidt
Viðtal
s
Eg var tuttuguogtveggja og komin rúma fimm mánuði á leið. Ég veit
ekki hvernig ég lenti á þessum upplestri, og þó. Þetta var fyrir
rúmum fimmtán árum. Eins og flestir kunningjar mínir hafði ég á
þessum tíma mun meiri áhuga á kjarnorkuvopnum og hústökum en
bókmenntum. Mig minnir að ég hafi verið búin að mæla mér mót við
vinkonu mína á kaffihúsi við Savignyplatz. Eftir að hafa beðið hennar
árangurslaust í klukkutíma ráfaði ég stefnulaust um göturnar, fyrst í þá átt
sem hún hefði orðið að koma úr. Þá sá ég þennan mann inn um glugga á
bókabúð. Hann sat við borð með hljóðnema fyrir framan sig og las. Ég
opnaði dyrnar hljóðlega, nam staðar í horninu, það var ekkert sæti laust. Ég
man ekkert eftir því sem hann las. Það var einfaldlega gaman að horfa á hann,
hvernig hann hreyfði höfuðið, breytti um svip, og umfram allt fannst mér
hendurnar á honum fallegar. Þar kom að ég fann fyrir því að fólk var að horfa
á bumbuna á mér, og konan sem sat næst mér bauð mér stólinn sinn. Ég vildi
frekar standa, bumban íþyngdi mér ekkert, ég var búin að gleyma henni.
Eftir að lestrinum lauk áritaði höfundurinn bækur, eins og venja er. Ég
fletti bókinni hans sem var til sýnis og hefði kannski keypt hana, ef það hefði
verið mynd af honum í henni. Eitt andartak hvarflaði að mér að hafa við
hann viðtal, en svo sannfærðist ég um að það væri betra að kynnast honum,
án þess að nota þetta yfirskin. Ég virti fyrir mér hópinn sem safnaðist í
kringum hann, það var líklegt að þau færu saman út á krá. Hann fór út úr
bókabúðinni í fylgd þriggja karla og einnar eldri konu.
Ég spurði konuna sem hafði boðið mér stólinn, hvort hún vissi hvert hann
væri að fara. Auðvitað, sagði hún, hann fer aftur til baka. - Til baka hvert? -
Nú, vitið þér það ekki? - Veit ég ekki hvað? - Hann fer aftur til baka í klefann
sinn. - Ég skildi enn ekki hvað hún átti við. Hann lítur ekki út eins og
munkur, sagði ég. Munkur, át hún upp eftir mér. Zoltan Beyer er fangi. Ég
hlýt að hafa horft á hana eins og ég væri að heyra þetta orð í fyrsta sinn.
Fangi? - Hann er búinn að sitja í tukthúsi í átta ár. - Nei, sagði ég, það getur
ekki verið, hann lítur út eins og hann sé að koma úr sumarfríi. - Ef þér
meinið húðlitinn, þá er móðir hans Ungverji.
TMM 1998:3
www.mm.is
37