Tímarit Máls og menningar - 01.09.1998, Blaðsíða 23
LJÓSKUSAGA AF MÓLINNI
eitthvað lifandi innan um öll þessi gerviefni. Vélarnar voru hjá henni,
peningarnir í pappírsörkum og téð Stærsta Dagblað stórborgarinnar. Það
sem eftir lifði nætur vék ég ekki af varðstað mínum en ljóshærða konan lét
ekki sjá sig aftur. Hver veit hvað hún þurfti að gera - það var ekki slökkt á
hæðinni fyrr en klukkan fimm.
Hvers konar líf er þetta? Móðir mín segir: „Reglusamt. Allir verða að
vinna fyrir sér.“ - „Já já, mamma, auðvitað, en við hvaða skilyrði. Og með
hvaða áhyggjur á herðunum.“ - „Það er reyndar alveg rétt hjá þér.“
Enda þótt um það bil fjörutíu metrar séu á milli gluggans míns og þess
sem ljóshærða konan stóð við er ég viss um að hún var döpur. Kannski af því
að kærastinn hennar drekkur þegar hún þarf að vinna á nóttunni og hrýtur
þegar hún ætlar að sofna. Það er brennivínsfnykur í svefnherberginu. Aldrei
ffamar skyldi hún vekja hann, eftir að hún hafði ýtt við honum einu sinni og
hann sagt svipljótur „Haltu kjafti!“.
Á nóttunni lýsa ljóskastarar bygginguna upp. Hún endurkastar hlýju gulu
Ijósi með rauðum blæ sem minnir á moskur í birtunni fyrir þrumuveður.
Vorgullsrunnarnir á gaddvarinni stálgirðingunni blómstra fyrr og ríkulegar
en vorgullið í almenningsgarðinum við hliðina, þar sem ég hafði uppgötvað
að borgartrén eru tölusett, með litlum plastspjöldum sem eru negld á
stofnana, líka á þau sem alminnst ber á - um leið og þau fara að sperra sig eru
þau skráð á lista og lenda í kerfinu. Það var eins og trén hefðu verið tekin af
mér með þessu - eins og ég hefði ffam að því verið þeirrar skoðunar að til
væri ósnortin náttúra. Ég hef lengi verið bundinn stærsta hlyninum í
garðinum vináttuböndum. Á honum hékk spjaldið svo hátt uppi að ég hafði
ekki tekið eftir því í faðmlögunum. Nú gekk ég um og grét - frá einu númeri
til annars, á næturþeli.
Mér hefur enn ekki tekist að átta mig á tímaáætlun varðmannanna. Þeir
rölta tveir saman í makindum eftir gangstéttinni. „Varstu búinn að lesa um
þessa sem lá dauð í rúminu í morgun?”- „Með kúluna í hausnum?“ - „Nei,
með keflið í munninum." - „Ég las bara þetta með kúluna.“ - „Ég las það
líka. Þú verður að lesa þetta með keflið.“ - „Er mynd með?“ - „Hm.“ Þeir
virðast rólegir og yfirvegaðir eins og dvalargestir á heilsuhæli á göngu í
garðinum. Maður þyrfti að sjá framan í þá. Ég eftirlét kíkinn minn manni
sem hefur meiri not fyrir hann en ég. Hann býr úti í sveit. Á meðan kíkirinn
var enn í minni eigu fylgdist ég með manni sem kom akandi í vinnuna
heilum klukkutíma of snemma til þess að tryggja bílnum sínum stæði. Og
svo sat hann þarna og var svo værðarlegur á svipinn að það hefði mátt halda
að hann væri með hnetur í rassvösunum. Hendurnar hvíldu á stýrinu og
héldu á litskrúðugu tímariti, en innihaldi þess kýs ég að láta ólýst. Hann var
vakandi en svaf samt, þangað til hann varð mín var og fór að fletta reiðilega.
TMM 1998:3
www.mm.is
21