Tímarit Máls og menningar - 01.09.1998, Blaðsíða 104
KRISTJÁN B. JÓNASSON
II
Þegar litið er yfir módernisma/póstmódernisma umræðu síðustu áratuga
sést að hún ber öll merki móðursýki, óviðráðanlegrar þarfar til að yfir-
trompa fyrri hrakspár og útmála DÓMSDAGINN af miðaldalegri ákefð.
Dýptin var aðeins eitt hugtak af mörgum sem veðurfræðingar menningar-
innar notuðu til að mæla breytingar á loítþrýstingi. Stundum voru það hug-
tökin /saga/ og /minni/, stundum hugtökin /frumleiki/ eða /hvarf sjálfsins/
og stundum hugtökin /hnignun/ og /hrun/ sem voru ólíkt skemmtilegri,
enda einhver Spenglerískur þefur af þeim sem gerir þau mikilúðleg. í stuttu
máli miðaði móðursýkin að því að sýna fram á að allt og allir væru komin út
á malbikaða bílastæðið við heimsenda og að handan þess væri ekkert. Ekkert
tæki við nema endalaus þreytuleg hugleiðing þessara endaloka, melankól-
ískt sorgarferli áþekkt því menningarástandi sem Walter Benjamin segir í
sínu mergjaða riti Uppruni þýska sorgarleiksins að hafi einkennt Evrópu á
fyrri hluta nýaldar. Sorgmæddar verur ráfuðu um í myrkri rústanna, búnar
að týna þræðinum en gátu þó enn lesið á brotnar töflur sem þær fundu í þrif-
legu illgresinu sem óx í hverri skoru. Það er ekki grunlaust urn að öll eítir-
stríðsárin hafí verið eitt samfellt ferli sorgar og skelfingar, ein samfelld svört
messa, ein samfelld kreppa undir hattbarði atómsveppsins sem samviskubit-
ið yfir nýjum ísskápum og ryksugum gerði enn sárari. Spekingarnir sem
mótast höfðu á árunum fýrir stríð, menn eins og Adorno, Beckett, Bataille,
Barthes, Sartre og Camus, sviðsettu helgiathafnir þessarar dauðamerktu
menningar. Þeir reyndu að flæma skynsemina út úr greninu með því að
skrifa bækur þar sem henni var snúið á haus, ljá listinni hlutverk með því að
neita henni um það og útrýma þögninni með því að drepa tungumálið. Það
er í þessum jarðvegi sem hin tæknilega sýn konkretpóesíunnar, nútímadans-
ins, raðtónlistarinnar, geómetríunnar, nýsögunnar, nýbylgjunnar og
alþjóðastílsins verður til. Tæknihyggjunni var ætlað að slá skjaldborg utan
um það sem enn var hægt að verja fyrir ágangi dauðamenningarinnar, hinn-
ar slítandi hugmyndalausu fjöldamenningar kjarnorkuveldanna. Og af þess-
um mönnum lærðu jafh ólíkir höfundar og Baudrillard, Kathy Acker og
Milan Kundera að hugsa. Lykilorðið var og er: „Þetta er allt búið“. Ég kannast
sjálfur mætavel við þessa nautn. Þessa sætu vellíðan sem býr í hugsuninni
um hinn póstmóderníska dómsdag. Það er nefnilega hald í móðursýkinni og
sæla í sefjunarmættinum þegar orðin reyna að afneita sér sjálfum með því að
vera nógu stórkarlaleg. Því svakalegri sem útmálanir Baudrillards eru á
samtímanum, því sterkar skynjar lesandinn von hans um að orðin burtreki
andana illu. Örvæntingarfull djöflafræði hans eru í engu frábrugðin
Character Bestiae Páls í Selárdal eða Hugrás Guðmundar á Staðarstað. Póst-
102
www.mm.is
TMM 1998:3