Skáldskaparmál - 01.01.1994, Síða 57
Sannyrði sverða
55
en lífið. Sagnaritarar 13. aldar virðast á einu máli um afstöðu forfeðra sinna til
dauða. Garpurinn hræðist ekki dauðann og fagnar honum jafnvel.
Þó eru þar undantekningar á. Þeirra frægastur er Hrafnkell Freysgoði sem lætur
svo um mælt að honum muni „fara sem mörgum öðrum að lífið mun eg kjósa ef
kostur er.“ (Hrafnkels saga, IF, IX, 121)58 Þar svipar honum til höfðingja
Sturlungaaldar sem kjósa lífið fremur en dauðann jafnvel þó að þeir þurfi að
leggjast svo lágt að biðjast griða. Sturla Þórðarson sjálfur hikar ekki við að þiggja
grið í Örlygsstaðabardaga og Svarthöfði Dufgusson biðst griða „heldur ákaflega"
í Þórðar sögu kakala. Jafnvel sjálf ofurhetjan Sturla Sighvatsson biður Hjalta
byskupsson um grið þegar hann er þrotinn krafta á Örlygsstöðum. Sterkust er þó
lífshvötin hjá Gissuri Þorvaldssyni þegar hann skríður ofan í sýrukerið í Flugu-
mýrarbrennu og tekst þannig á makalausan hátt að sleppa lífs úr brennunni og
lifa af alla fjölskyldu sína. Þó að kappar kjósi dauðann fremur en lífið í þeirri
fjarlægu fortíð sem lýst er í elstu Islendingasögum er raunveruleikinn annar. Það
sést vel í íslendinga sögu sem er ekki jafn bundin hefðinni og íslendingasögur-
nar.59 Jafnaldri Illuga og hinn hraustasti maður, Guðmundur Ormsson, verður
að öllu leyti vel við dauða sínum en þegar hann fréttir að hann skuli höggvast
segir hann: „Gott væri enn að lifa og vildi eg grið fóstri.“60 Sú afstaða færir þennan
ungling nær nútímalesanda en Illugi er. Hann er mannlegri.
í íslendinga sögu er það að mestu liðin tíð að menn kjósi fremur að deyja en
lifa, þótt einstaka dæmi finnist um það. Hetjudauðinn er þó ekki með öllu
horfinn. í orðum Bjarnar Hítdælakappa má finna flest lykilatriði sæmdarhugsjón-
arinnar eins og hún birtist í íslendingasögum. í Sturlungu er þá hugsjón ekki að
finna. Eftir stendur hins vegar samkenndin með þeim sem glatað hefur öllu en
heldur samt mannleika sínum og reisn.61 Menn reyna að verða vel við dauða
sínum og láta engan sjá á sér að þeim sé nokkuð brugðið, syngja bænir og glettast
jafnvel með dauða sinn.62 Einstaka ofurhugar kasta fram vísu sem sýnir æðruleysi
þeirra gagnvart dauðanum. Mun þar frægust vísa Þóris jökuls sem er á engan hátt
eftirminnileg persóna í íslendinga sögu og vinnur engin afreksverk íyrr en í
dauðanum að hann gerist hetja og kastar fram vísu sem lifað hefúr með þjóðinni
síðan. Þetta er sá hetjuskapur sem stendur eftir þegar frásögn Islendinga sögu
hefur svipt bardaga og vígaferli aldarinnar hetjuljómanum svo eftir standa nakin
58 Hermann Pálsson (Mannfrœði Hrafhkels sögu ogfrumþtMir, Reykjavík, 1988, bls. 106-107)
nefnir fleiri dæmi um þetta, m.a. úr Brennu-Njáls sögu, ÍF, XII, bls. 332 og Fljótsdæla sögu,
ÍF, IX, bls. 269. Eins og hann bendir á þarf þetta ekki að stangast á við áðurnefnda hetjuhugsjón.
59 Mismunandi afstaða þessara bókmenntagreina til hefðarinnnar kemur vel fram hjá Stephen A.
Mitchell (Heroic Sagas andBallads, bls. 13-32).
60 Þetta dæmi er raunar ekki í íslendinga sögu heldur Svínfellinga sögu (563) en eins og áður kom
fram er ekki útilokað að aðrar sögur Sturlungu endurspegli sama viðhorf og íslendinga saga (sjá
nmgr. 34).
61 Vésteinn Ólason fjallar um þessar tvær skilgreinar á hetjuskap í norrænum fornbókmenntum
og fleiri í grein sinni „Halldór Laxness og íslensk hetjudýrkun," Tímarit Máls og menningar,
53/3, 1992, bls. 31-41.
62 Hér eru í nokkrum tilvikum (t.d. eftir Hólabardaga) á ferðinni píslarsöguáhrifsem líka má finna
dæmi um í íslendingasögum.