Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 64
62 Ármann Jakobsson
lýsa húsakynnum þar af mikilli kostgæfni. Hann segir að þar hafi verið „híbýli
góð, skáli tjaldaður allur og skipaður skjöldum utan á tjöldin en brynjur voru fýrir
framan rekkjur. Solveig húsfreyja hafði fætt barn skömmu áður og var hún þá
risin af hvílunni og lá í stofu og Þuríður dóttir hennar og Valgerður móðir hennar
og margt annarra manna.“(311) Hér er lýst kvennaveröld og konur einar nafn-
greindar. Sagt er frá nýafstaðinni fæðingu. Nýtt líf hefur bæst í heiminn og móðir
og barn hvíla sig eftir erfiðið. Friður ríkir. Nýfæddu barni er teflt upp sem
andstæðu við þá ruddafengnu innrás í helgasta vé höfðingjans sem fylgir á eftir.
Nú er skipt um svið yfir til árásarmannanna sem bíða úti í nóttinni en
náttmyrkrið magnar upp óhugnaðinn. Sturla leggur áherslu á ákafa hinna ungu
árásarmanna sem nálgast múgsefjun: „Svo var flokkur sá ákafur að hver eggjaði
annan. Engi var til latanna.“(311) Hann veltir jafnframt upp þeim möguleika að
ef til vill hefði óhæfuverkinu verið afstýrt, hefði einhver verið „til latanna“. Síðan
kemur lýsing á árásinni: „Nú gengu þeir í skálann með höggum og blóti og hjuggu
þá allt það er fyrir varð og ruddu hvorum tveggja megin lokrekkju og urðu engir
menn til varnar með vopnum.“(311-312) Hetjulegt er þetta framferði ekki og
skammt á milli þessarar lýsingar og þeirra orða Gerplu að norrænum mönnum
hafi þótt „lítill hernaður ef þeir náðu eigi að granda þrem tylftum óvopnfærra
manna á móti hverjum vígum karli er þeir drápu; og hefur þótt hæfa að sú tiltala
héldist hjá dreingilegum herflokkum síðan, þeim er nokkurs meta frægð og
hetjuskap“.70
Síðan er klykkt út með orðunum: „Þar var aumlegt að heyra til kvenna og sárra
manna.“(312) Lengra verður vart komist í fordæmingu á þessu voðaverki. Því
verra sem voðaverkið er, því nákvæmar er því lýst. Næst segir frá presti einum sem
reynir að verja sig með kodda fyrir sverðum ofbeldismannanna en maður sem
heitir því óvirðulega nafni Snorri saurr hvetur þá til að sækja frekar að „oss hinum
ólærðum mönnum en látið vera prestinn í friði.“(312) Það ergert og Snorri særður
til ólífis. Þó að lýsingin sé ógeðfelld kemur fram jákvæður boðskapur. í óhugn-
aðinum finnast menn sem eru drengir svo góðir að þeir eru tilbúnir til að fórna
lífi sínu fyrir aðra. En eins og ég nefndi áður er það einmitt í dauðanum sem
sannar hetjur birtast í Islendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, þeir sem sýna karl-
mennsku og óttaleysi gagnvart dauðanum.
Ofbeldi og árásargirni Vatnsfirðinga kemur fýrir lítið. Þeir vega að konum og
húskörlum en finna ekki þann sem þeir leita, Sturlu Sighvatsson, þrátt fýrir að
þeir leiti hans með logbröndum. Þá ganga þeir bræður að hvílu húsfreyju, hrista
þar blóðug og brugðin vopn að henni og segja „að þar voru þau vopnin er þeir
höfðu litað lokkinn á honum Dala-Frey með.“(312) Þessi lýsing er vart til þess
fallin að vekja samúð með þeim Þorvaldssonum og hefði fleirum brugðið en
Solveigu, þótt ekki væru nýkomnir af barnssæng. Hér eru andstæður skarpastar í
þessari frásögn: Nýbökuð móðirin andspænis blóðugum sverðum illvirkjanna.
Sturla Þórðarson hikar ekki við að fella dóm yfir þeim bræðrum í gegnum Valgerði
70 Halldór Laxness, Gerpla, Reykjavík, 1952, bls. 235.