Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 71
Sannyrði sverða 69
eiga að ráða. En hina bar skjótt að er öruggir voru í sinni ætlan en skunduðu þó
ferðinni.“ (337)
Frá því að Sturla Sighvatsson vaknar frá draumi sem hann segir engum er ljóst
að vörn hans verður öll í skötulíki. Hann fær fregnir af her Kolbeins og Gissurar
nokkru áður en hann kemur og þar með færi á að flýja en hann kastar því frá sér
og hæðist þess í stað að liði andstæðinga sinna eins og Snorri Þorvaldsson hæddist
að honum sex árum áður og segir að það sé ekki „svo fátt sem það er smátt“.(430)
Síðan syngur hann Agústínusarbæn84 og er þá reiðubúinn að mæta skapara sínum.
Öll hegðan hans héðan í frá bendir til að það sé einmitt það sem hann ætlar sér.
Gerðið á Örlygsstöðum er einkennilega valinn staður til að verjast því að „garð-
urinn var lágur svo að það var með öllu ekki vígi.“ (417). Lýsir Sturla Þórðarson
síðan frænda sínum og tekur sérstaklega fram að hann hafi ekki tekið við
skildinum sem honum var ætlaður. Síðar hafnar hann ráðum manna sinna um að
ráðast gegn mönnum Kolbeins þegar þeir eru veikastir fyrir. Hann vill heldur
verjast í gerðinu á Örlygsstöðum, þótt það sé lélegt vígi.
Núna kemur Sighvatur með sitt lið ofan með fjallinu en hann kemur of seint.
Menn Kolbeins unga ráðast á þá um leið og þeir koma í gerðið og þeir verða að
hörfa eftir skamma stund. Þá ráðast menn Kolbeins að meginher Sturlunga frá
hlið og aftan frá. Brestur þegar flótti í liðið. Flýr þar Kolbeinn Sighvatsson með
menn sína alla og hluti af liði Sturlu líka, þar á meðal Sturla Þórðarson. Sighvatur
anar hins vegar í opinn dauðann. Tekið er fram að hann hafi verið með forna öxi
og rekna sem Stjarna hét en er svo ruglaður að hann snýr egginni niður en veifar
skaftinu. Menn kalla til hans og vara hann við en hann svarar engu og heldur
áfram. Hann er kominn til að hjálpa eftirlætisbarninu sínu, hvað sem tautar og
raular og skeytir engu þótt dauðinn bíði hans.
Fall Sighvats verður ekki á glæsilegan eða upphafmn hátt. Hann fellur af mæði
og vegið er að honum liggjandi. Kolbeinn reynir sjálfúr að leggja til hans en særir
hann lítt því að oddurinn er af spjótinu. Þá segir Sighvatur þurrlega: „Þér munuð
nú ráða skiptum vorum.“(420) Sighvatur biður ekki um grið. Hann hefur þegar
gert sér grein fyrir óhjákvæmilegum úrslitum orustunnar. Hann er aldraður maður
og virðist lítið kæra sig um að lifa son sinn. Sturla Þórðarson tekur aldur hans
sérstaklega fram og verður það ekki til að mikla verk Kolbeins. Öll lýsingin er
Kolbeini afar óhagstæð. Orðaskipti hans og manna hans opinbera kaldhæðni hans
og grimmd. Með þessum verknaði gerir hann föðursystur sína að ekkju án þess
að hugsa sig tvisvar um. Sturla Þórðarson dregur fram fórnarlund manna Sig-
hvats85 en þetta er einnig þáttur í lýsingu Sighvats sjálfs. Hann er héraðshöfðingi
sem nýtur slíkrar hylli meðal manna sinna að þeir eru tilbúnir að fórna lífi sínu
fyrir hann.86 Að lokum er lýst hvernig menn Kolbeins ræna líkið og fletta klæðum.
84 Fyrir hana fæst fyrirgefning þeirra synda sem gleymst hefur að geta í skriftarmálum (Sturlunga,
I, bls. 570. Textaskýring Kristjáns Eldjárns).
85 I grein sinni, „Ek ætla mér ekki á braut" (Afmalisrit Jótis Helgasonar 18. júní 1969, Reykjavík,
1969) finnur Einar Ól. Sveinsson fjölmargar hliðstæður við þessa atburði.
86 Gunnar Benediktsson, Sagnameistarinn Sturla, bls. 42—43.