Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 10
10
HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR
Hollywood-formúlan krafðist.9 Aðferðir hans og áherslur höfðu djúpstæð
áhrif á kvikmyndagerð víða um heim, ekki síst í Rómönsku Ameríku þegar
hann dvaldi í Mexíkó við gerð myndarinnar Lifi Mexíkó (¡Que viva México!,
1931) um mexíkósku byltinguna. Áhrif sovésku kvikmyndanna minnkuðu
hins vegar nokkuð í kjölfar þess að árið 1930 skipaði Stalín svo fyrir að öll
kvikmyndagerð skyldi vera í þágu byltingarinnar. Í kjölfarið skarst í odda
milli stjórnvalda og ýmissa þekktra kvikmyndagerðarmanna. Þeir töldu að
verið væri að hefta frumkvæði til sköpunar og fangelsa ímyndunaraflið og
þó margir héldu svokölluðum „sovéskum raunsæisstíl“ eða diktat-stíl á
lofti, settu þeir sig upp á móti einsleitninni. 10
Erlendar fyrirmyndir og yfirfærslur
Eiginleg kvikmyndagerð átti þó enn í vök að verjast í vel flestum löndum
Rómönsku Ameríku, ekki síst vegna þess hversu gríðarlega kostnaðar söm
hún reyndist og vegna þess hversu takmarkaðan tækjakost og tækniþekk-
ingu var þar að finna. Margskonar tilraunir voru gerðar og fjölmargir leik-
stjórar og kvikmyndagerðamenn álfunnar fylgdu fordæmi Hollywood, á
meðan aðrir fylgdu fyrirmyndum sovésku kvikmyndarinnar að málum.
Báðar fylkingar sameinuðust í tilraunum sínum til að blanda sérstæðum
aðstæðum á hverjum stað inn í uppskriftirnar sem þeir fengu að láni. Og ef
suður-amerísk kvikmyndagerð er höfð í huga og það hvernig hún mótaðist
af erlendum áhrifum, er rétt að ítreka að bandarísk kvikmyndagerð hefði
ekki getað verið frábrugðnari. Því þrátt fyrir brokkgenga byrjun varð hún
ráðandi á heimsmarkaði um og eftir miðja tuttugustu öldina. Því má halda
fram að evrópsk kvikmyndagerð hafi ráðið úrslitum um mótun kvik-
myndagerðar fram að fyrri heimsstyrjöld en sú bandaríska hafi náð afger-
andi forskoti um og eftir 1920 þegar 95% þeirra kvikmynda sem sýndar
voru í kvikmyndahúsum Rómönsku Ameríku voru banda rískar.11 Vand-
kvæði heimamarkaðar snerust fyrst og fremst um fjárskort. Í tengslum við
framgang kvikmyndagerðar í Brasilíu hafa Robert Stam og Randal Johnson
bent á eftirfarandi:
9 Sergei Mikhailovich Eisenstein (1898–1948) gerði ennfremur myndirnar Alex-
ander Nevskí (1938) og Ívan grimmi (1944 og 1958).
10 Jay Leyda, A History of the Russian and Soviet Film, bls. 180–185, 194–200 og
210–212.
11 John King, Magical Reels, bls. 9.