Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Side 14
HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR
14
fráhvarf frá gjaldþrota hugmyndum um hlutverk búrókrat-
ískra kommúnistaflokka eins og þeim hafði verið stjórnað frá
Moskvu. Samhliða hafði nýtt form sósíalisma rutt sér til rúms.
Það byggði á atgervi fólksins, fyrst og fremst bænda, en einn-
ig verkamanna borgarsamfélagsins […]. Kúbverska byltingin
færði heim sönnur fyrir því að mismunandi tegundir byltinga
voru mögulegar.16
Kúbverska byltingin átti eftir að hafa afgerandi áhrif á þróun kvik-
myndagerðar um alla Rómönsku Ameríku. Ekki hvað síst fyrir þær sakir
að Fidel Castro fylgdi hugmyndum Leníns um að kvikmyndin væri mikil-
vægust lista og Kúbverska kvikmyndaakademían var sett á laggirnar strax
árið 1959.17 Akademían naut opinberra fjárframlaga og markmið hennar
var að fræða og upplýsa íbúa landsins og umheiminn um þær breytingar
sem kúbverskt samfélag var að ganga í gegnum. Samtímis var henni ætlað
að skapa breytta ímynd af raunverulegum aðstæðum, ekki bara á Kúbu,
heldur um gervallan þriðja heiminn svokallaða. Frá upphafi var ljóst að
áherslur byltingarinnar snerust um að ógna og ögra viðteknum viðmiðum
nýlendustjórnunar. Akademían kom því til leiðar að menntamenn og
fræðimenn ásamt kvikmyndagerðarmönnum hvaðanæva að úr álfunni
hitt ust og fengu tækifæri til að bera saman bækur sínar og beina sjónum að
áherslum, aðstæðum og draumum álfunnar. Í þessum hópi voru brautryðj-
endur kúbverskrar kvikmyndagerðar og áhrifavaldar um álfuna alla eins
og Tomás Gutiérrez Alea, Humberto Solás og Julio García Espinosa.18 Í
meðförum þeirra varð heimildamyndaformið strax á sjötta áratugnum
mikilvægt verkfæri í fræðslu og menntun alþýðunnar, ekki bara á Kúbu,
heldur víða um Rómönsku Ameríku. Margar þeirra mynda sem fram-
leiddar voru í árdaga byltingarinnar komust aldrei til sýninga í „fínustu“
16 Robert J.C. Young, Postcolonialism: An Historical Introduction, Oxford: Blackwell,
2003, bls. 20.
17 Argentínsku kvikmyndagerðarmennirnir Solanas og Getino héldu því fram tæpum
áratug síðar að kvikmyndin væri áhrifamesti samskiptamiðillinn sem til væri. Hún
samtvinnaði ólík listform, mynd, hljóð, ljós, liti o.s.frv., með þeim afleiðingum að
enginn áhorfandi yfirgæfi kvikmyndasýningu án þess að hafa orðið fyrir áhrifum.
Sjá Fernando Solanas og Octavio Getino, „Í átt að þriðju kvikmyndinni“, þýðing
Hólmfríður Garðarsdóttir, Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003, bls. 281–305.
18 Julianne Burton, ritstj., Cinema and Social Change in Latin America: Conversations
with Filmmakers, Austin: University of Texas Press, 1986.