Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Síða 32
32
JÓN THORODDSEN
Englandsdrottning á ferð, en Filippus II. var í raun kvæntur systur hennar,
Maríu Tudor. Þeim þriðja fylgir völvan Celestína, sem er ein þekktasta
persóna spænskra bókmennta og er í Terra nostra tákn fyrir allt það sem
konungurinn ofsækir.9 Þriðji skipbrotsmaðurinn, sem kallast pílagrímur-
inn, er frábrugðinn hinum að því leyti að fyrir skipbrot hafði hann slæðst
til Vesturheims og gengið þar inn í goðsögulegt hlutverk guðsins
Quetzalcóatl; í goðafræði Asteka var hann fiðruð slanga sem færði þeim
siðmenninguna og bannaði mannfórnir.10 Tímatal Asteka gerði ráð fyrir
endurkomu Quetzalcóatl um það leyti sem Spánverjar réðust þar inn og
eins og frægt er orðið átti goðsaga þessi þátt í að goðkenna landvinninga-
manninn Hernán Cortés og menn hans þegar þá bar upp að ströndum
Ameríku. Þarna er goðsögu frumbyggja Ameríku fléttað saman við veru-
leika landafundanna. En hér snýr Fuentes upp á söguna með því að endur-
segja goðsögnina sem landvinningasögu Spánverja. Pílagrímurinn finnur
stöðugt hvernig goðsagan ákvarðar ferð hans og gefur honum sjálfsvitund
sem uppbót fyrir minnisleysið. Þetta er meginefni annars hluta bókar-
innar.
Þriðji hluti Terra nostra er eins konar tilraun til að skýra hinn dulfræði-
lega undirtón atburðanna í fyrri hlutunum tveimur. Þar er ýmislegt útskýrt
um uppruna og forsögu þrí-faranna, og hvernig völvan Celestína og dul-
fræðingurinn Ludovico fara huldu höfði eftir að hafa bjargað þeim
nýfæddum undan ofsóknum konungsvaldsins. Eins og sjá má vinnur
Fuentes hér með minnið um ofsóknir Heródesar eftir fæðingu Jesú. Í rás
sögunnar ferðast lesandinn með Ludovico víða um strendur Miðjarðar-
hafsins með þrí-farana á barnsaldri. Í þessum hluta kemur meðal annars
fram að þeir eru hálfbræður konungs, en það gefur til kynna að þeir geti
steypt honum af stóli. Á ferðunum eru mörg dularfræði reifuð sem meðal
annars skýra örlög þrí-faranna. Þeir bera með sér álög sem Tíberíus keis-
ari hafði á sínum tíma lagt á ótiltekið konungsríki í upplausn. Á ferðum
sínum finna ferðalangarnir flöskuskeyti frá Tíberíusi og það færir sögu-
sviðið til hinnar fornu Rómar, þar sem lesandi fylgist með því hvernig
9 Hún er aðalpersónan í samnefndu verki, La Celestina, eftir Fernando de Rojas frá
lokum 15. aldar. Það er talið marka umskiptin milli miðalda og endurreisnar í
spænskri menningu og er illflokkanlegt sambland af leikriti og skáldsögu.
10 Sjá einnig Octavio Paz, El laberinto de la soledad, bls. 81–88, Miguel León-
Portilla, Aztec Thought and Culture: A Study of the Ancient Nahuatl Mind, Norman:
University of Oklahoma Press, 1990 og Jacques Soustelle, The Daily Life of the
Aztecs on the Eve of the Spanish Conquest, London: Weidenfeld and Nicolson,
1961.