Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 45
„ÞIÐ HLUSTIÐ ALDREI Á OKKUR“
45
eitt fyrsta mexíkanska skáldverkið sem tók þetta efni fyrir.12 Eftir nokkurra
mánaða flakk og vinnu í Texas koma félagarnir tveir aftur að fljótinu og
hyggjast halda til síns heima. Þeir virðast hafa hlotið „andlegan“ dauða á
ferðum sínum, eru orðnir hálfómennskir og siðferðiskenndin dofin (nokkuð
sem má rekja til landamæranna). Allir látast félagarnir þrír í fljótinu, hver á
sinn hátt. Sé fljótið undanskilið, koma landamærin sem slík tæpast við sögu.
Þó er minnst á borgina Matamoros, en þar verður einum félaganna að orði:
„Landamærin Mexíkómegin, eins og þau leggja sig, eru ekki annað en eitt
allsherjar hóruhús fyrir Kanann.“13 Þessi mynd af landamærunum kemur
heim og saman við sögusögnina myrku sem áður var minnst á. Hvað landa-
mærin snertir gerir bók Spota lítið annað en staðfesta sögusögnina.
Tæplega fimm áratugum eftir að Murieron a mitad del río kom út, eða
1995, sendi annar rithöfundur frá Mexíkóborg frá sér verk þar sem landa-
mærin koma við sögu. Það var Carlos Fuentes með La frontera de cristal
(Glerlandamærin). Bókin ber undirtitilinn skáldsaga í níu smásögum og
tengjast sögurnar allar landamærunum á einn eða annan hátt. Fuentes ein-
skorðar sig þó ekki við hin landfræðilegu og pólitísku mörk, heldur teygir
hann þau í allar áttir, suður til Mexíkóborgar og norður til Cornell í New
York, til Chicago og annarra borga í Bandaríkjunum. Þannig verða þau
óáþreifanleg og ósýnileg, og vísa oftar en ekki til marka sem skapast milli
kynja, ólíkra kynþátta, tungumála og menningarheima, enda skírskotar tit-
ill bókarinnar til gagnsærra marka. Jafnvel þótt útgangspunktur Fuentesar
sé hin pólitísku og landfræðilegu mörk gerast sögurnar fæstar á landamær-
unum sjálfum. Það sem virðist einkum vaka fyrir Fuentes er að taka til
umfjöllunar þau mörgu vandamál – félagsleg, efnahagsleg, menningarleg,
sálræn – sem hafa fylgt í kjölfar markanna og hafa litað samskipti þjóðanna
tveggja.
12 Bókina mætti e.t.v. skipa í flokk migrantes-sagna, þ.e. sagna um (farand)verkamenn
sem leita vinnu í Bandaríkjunum. Á næstu árum komu út allmargar bækur um
svipað efni eftir mexíkanska höfunda: Aventuras de un bracero (1948/9) eftir Jesús
Topete, Huelga blanca (1950) eftir Héctor Raúl Almanza, El dólar viene del norte
(1954) eftir José de Jesús Becerra González og Tenemos sed (1956) eftir Magdalenu
Mondragón. Sjá ágæta grein Alberto Ledesma, „Cruces indocumentados. Nar ra-
tivas de la inmigración mexicana a Estados Unidos“ í Cultura al otro lado de la
frontera, David R. Maciel og María Herrara-Sobek (ritstj.), México, D.F.: Siglo
XXI, 1999, bls. 97–134. Smásagan „Paso del Norte“ úr El llano en llamas (1953)
eftir Juan Rulfo og kaflinn „Los norteños“ úr skáldsögunni Al filo del agua (1963)
eftir Augustín Yañez taka einnig á þessu efni.
13 Luis Spota, Murieron a mitad del río, México, D.F.: Libro Mex Editores, 1959, bls.
158.