Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Side 58
KRISTÍN GUÐRÚN JÓNSDÓTTIR
58
þeirra veltur á henni“.42 Eduardo Antonio Parra svaraði í næsta hefti
Letras Libres þar sem hann leitast við að gera bókmenntunum „úr norðri“
sanngjörn skil með því fletta ofan af hinni nýju myrku sögusögn. Hann
leggur áherslu á að þarna séu á ferðinni mexíkanskar bókmenntir um
mexíkanskan veruleika, bókmenntir sem einskorði sig hvorki við glæpi né
eiturlyf, heldur taki á ýmsum málefnum með fjölbreyttum hætti.43
Landamærin í bókmenntum Chicanóa. Táknræn landamæri
Þegar Mexíkó missti stóran hluta af landsvæði sínu í hendur Bandaríkjanna
árið 1848 urðu margir landsmenn eftir í „nýja landinu“ en aðrir kusu að
flytjast yfir línuna og koma á fót nýjum byggðum sunnan markanna. Oftast
er vísað til „eftirlegukindanna“ og afkomenda þeirra sem Mexíkó-
ameríkana eða Chicanóa.44 Vegna sérstakrar sögu þeirra er sjaldnast talað
um þá sem innflytjendahóp. Það er forvitnilegt að skoða bókmenntaverk
þeirra um reynslu sína á landamærasvæðunum í „nýja“ landinu. Umrædd
verk sáu dagsins ljós um miðja síðustu öld en upp úr sjöunda áratugnum
komu út allmörg verk sem mynda grunninn að nútímabókmenntum
Chicanóa. Verk þeirra fjalla einatt um uppvaxtar- og æskuár, menningar-
arfinn, spænska tungu, árekstra Mexíkóameríkana og „Anglóa“ eða Engil-
saxa. Þau bera þess glöggt merki að hér eru Mexíkanar að laga sig að
„nýju“ landi, landi sem fyrrum tilheyrði forfeðrum þeirra. Þeir eru Mexí -
k anar sem eru að breytast í Mexíkóameríkana og gamla Mexíkó er að
verða hluti af Bandaríkjunum.
Chicanóar hafa gefið út skáldsögur, smásögur eða eins konar minn-
ingabækur um þetta efni. Má nefna Rolando Hinojosa (f. 1929) og skáld-
verk hans Estampas del Valle y otras obras (Skissur úr dalnum, 1972) og Klail
City y sus alrededores (Klailborg og nágrenni, 1976) þar sem hann skrifar
um lífið í suðurodda Texas, heimkynnum „fyrrverandi“ Mexíkana og
afkomenda þeirra; Robertu Fernández (f. 1942) sem tekur fyrir reynslu-
heim Chicanó-kvenna á heimaslóðum sínum, landamærabænum Laredo í
Texas í Intaglio: A Novel in Six Stories (Grafið í stein: Skáldsaga í sex sögum,
42 Rafael Lemus, „Balas de salva. Notas sobre el narco y la narrativa mexicana“,
Letras Libres, sept. 2005, bls. 39–42.
43 Eduardo Antonio Parra, „Norte, narcotráfico y literatura“, Letras Libres, okt.
2005, bls. 60–61.
44 Hugtakið Chicano er dregið af Mexica eða Mesheeka (annað nafn fyrir Asteka) sem
síðar breyttist í Mechicano. Chicanóar tóku heitið upp í réttindabaráttu sinni á
sjöunda áratug tuttugustu aldar og varð það hlaðið pólitískri merkingu.