Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Síða 66
ROSARIO SANMIGUEL
66
á móti kvartaði pabbi sáran undan því að fá ekkert að gera, þar til sá dagur
kom að örvæntingin greip hann. Hann sagðist ætla að halda lengra inn í
landið. Sunnudagsmorgun einn vaknaði hann staðráðinn í að fara. Við
mamma fylgdum honum niður í bæ í dómkirkjuna en þar vildi hann koma
við. Síðan kvöddum við hann, með litla tösku í hendi, á árbakkanum. Þetta
var í síðasta skipti sem við sáum hann. Ég varð hrygg um leið og ég fór að
hugsa um þetta og það greip mig löngun til að kyssa litlu tattútárin við
vinstra augað á Martín. Annað þeirra er frá því ég komst í kast við lögin og
hitt frá því mamma gamla dó, sagði hann kvöld eitt. Köngulóarvefinn á
vinstri öxlinni vann ég í veðmáli af einum félaganna. Sá sem tapaði átti að
borga hinum tattúveringu á bestu tattústofunni hinum megin.
Þegar hann opnaði augun hringsnerist allt í kollinum á mér og ég
spurði hann aftur um landamæravörðinn. Hann sagði að þetta væri ekkert
en þegar ég ítrekaði svaraði hann loks.
– Hann heitir Harris, þessi græni. Ég þekki hann frá því fyrir löngu,
eiginlega frá því ég byrjaði í þessu. Fyrst gekk samstarfið vel hjá okkur og
án vandræða, en síðan vildi hann láta mig redda sér hverju sem var. Hann
bað um að fá fólk í vinnu hinum megin. Ég reddaði honum þjónustustúlk-
um, garðyrkjumönnum, þjónum og meira að segja mariachi-hljómsveit
með hljóðfærum og öllu tilheyrandi. Þetta var fyrir hann sjálfan og vini
hans. Hann borgaði mér reyndar vel, en ætli vandræðin hafi ekki byrjað
þegar ég fór með fólk í chilitínslu til Nýju Mexíkó. Ég fór með það alla
leið upp að ökrunum, það er miklu áhættusamara og ég vildi bara fá meira
fyrir það. En hann vildi ekki borga og okkur lenti saman. Þar að auki er
hann í slagtogi við náungann sem ég stakk fyrir að vera svona mikill kjaft-
askur, manstu? Ég vil bara fá peninginn minn.
Hann þagði og tók utan um mig. „Hafðu ekki áhyggjur, Moni mín,
þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í vörðunum.“ Við kysstumst og
hjúfruðum okkur hvort upp að öðru. Við fórum frá hótelinu og ég rétt
náði síðasta vagninum heim til Felipe Ángeles.
Ég ætlaði aldrei að sofna. Oftast var það þannig eftir að ég hafði verið
með Martín. Ég gat ekki hugsað um annað en hann. Þar að auki var ég
áhyggjufull. Loksins sofnaði ég um leið og ég ákvað að hætta við ferðina
yfir.
Daginn eftir lét ég á mig festina með skæru perlunum og setti buxur
handa Martín í gallatösku til þess að hann þyrfti ekki að vera í blautu stutt-
buxunum. Ég hafði hugsað mér að bjóða honum í bíó, en ég var ekki fyrr