Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Side 84
84
KRISTÍN I. PÁLSDÓTTIR
skrifaði var ekki viðstödd þegar bréfið var lesið. Losnaði hún því undan
neikvæðum tengslum sem kvenröddin, sem var valdalítið tæki, skapaði og
fullnægði þar með kröfum um hógværð kvenna. Bréfaskriftir voru því sú
leið sem konum var fær að opinberu tjáningarrými sem annars var ein-
göngu ætlað karlmönnum. Pizan notaði bréfsformið mikið í sínum skrif-
um og Stephanie Evans telur nokkuð ljóst að Sor Juana hafi þekkt rit
hennar, sérstaklega Bókina um kvennaborgina og verið undir áhrifum af
henni þegar hún skrifaði Svarið.66 Þessar tvær konur taka þannig báðar
þátt í sköpun kvenlegrar hefðar í vestrænum bókmenntum.
Í Svarinu lítur Sor Juana yfir líf sitt og fær til liðs við sig margar kyn-
systur úr bókmennta- og kristnisögunni máli sínu til stuðnings gegn
þagnar kröfu yfirmanna sinna. Hún telur upp konur eins og Debóru67 úr
Biblíunni:
Því ég sé Debóru ráða lögum og lofum í hernaði jafnt sem
stjórnmálum og stjórna fólki þótt nóg hafi verið af lærðum
mönn um til þess. Ég sé hina alvitru drottningu af Saba, svo
lærða að hún dirfðist að láta reyna á þekkingu hins elsta af vitr-
ingunum með gátum án þess að vera ávítuð. Þar áður var hún
dómari yfir hinum trúlausu. Ég sé margar stórbrotnar konur;
sumum var gefin spádómsgáfa, eins og Abigaíl; öðrum fortölu-
gáfa eins og Ester, sumum var gefin miskunnsemi eins og Rahab
eða þrautseigja eins og Önnu móður Samúels og ég sé óteljandi
aðrar búnar ýmsum hæfileikum og dyggðum.68
66 Stephanie Evans, „Christine de Pizan y su papel como antecesora de Sor Juana
Inés de la Cruz“, bls. 105.
67 „Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét.
Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir. Hún sat undir Debórupálma milli
Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að
hún legði dóm á mál þeirra. Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson
frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: „Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið
svo: Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí
sonum og Sebúlons sonum. Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með
vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar.“
Barak sagði við hana: „Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með
mér, mun ég hvergi fara.“ Hún svaraði: „Víst mun ég með þér fara. En enga frægð
munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu
hendur.“ [...] Fyrirliða vantaði í Ísrael, vantaði uns þú komst fram, Debóra, uns þú
komst fram, móðir í Ísrael!“; Biblían, Dóm 4:5–9, Dóm 5:7.
68 Sor Juana Inés de la Cruz, The Answer/La respuesta, bls. 76–77.