Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Síða 94
94
STEfÁn ÁSGEIR GuðmundSSon
ógleymdum látlausum frammíköllum. Fór svo að sjálfur Juan Carlos Spán-
ar kon ungur skipaði honum að þegja í beinni sjónvarpsútsendingu.
Venesúela er á suðurströnd Karíbahafs og búa þar rúmar 26 milljónir
manna. Landið hefur jafnan verið í skugga nágranna sinna og sýndi
umheimurinn því litla athygli allt til loka 20. aldar. Þó er Simón Bolívar,
hin þekkta frelsishetja og ein merkasta persóna Rómönsku Ameríku, fædd-
ur í Venesúela. Jafnframt vita þeir sem fylgjast með orkumálum að þar eru
einar stærstu olíulindir heims. Á síðustu árum hafa breytingar orðið á
umfjöllun um landið eftir valdatöku hins litríka Hugo Chávez og Venesúela
ratar nú æ oftar í fyrirsagnir blaða og tímarita.
Í þessari grein verður fjallað um ýmsar hliðar á stjórnartíð Hugo
Chávez, forseta Venesúela. Sagt verður frá mislukkaðri stjórnarbyltingu
hans árið 1992 sem varð til þess að hann breyttist úr óþekktum hermanni í
einskonar sameiningartákn þjóðarinnar gegn úreltu stjórnmálakerfi og
spillingu. Lítillega verður greint frá stjórnmálakerfinu í Venesúela fyrir
tíma Hugo Chávez og þær forsendur sem kerfið skóp fyrir uppgang hans.
Að lokum verður fjallað um stjórnartíð Chávez, áherslur og markmið,
ásamt því að tengsl við arfleið sterka mannsins í Rómönsku Ameríku verða
skýrð.
Frá óþekktum hermanni til frelsara
Hugo Chávez kom fyrst fram á hið pólitíska sjónarsvið í febrúar árið 1992,
þegar hann fór fyrir mislukkaðri stjórnarbyltingu. Hann var þá ofursti í
her Venesúela og yfirmaður fallhlífarherdeildar í borginni Maracay, rétt
utan við höfuðborgina Caracas. Ætlun Chávez var sú að ná völdum yfir
ákveðnum byggingum í höfuðborginni, þar á meðal forsetahöllinni, og
láta handtaka þáverandi forseta landsins, Carlos Andrés Pérez. Að því
loknu ætlaði Chávez að ávarpa þjóðina og boða nýja og betri tíma.2
Hin misheppnaða bylting kom í kjölfar mikilla erfiðleika í Venesúela
þar sem efnahags- og stjórnarkreppa hafði leikið landið grátt. Gripið hafði
verið til aðgerða á borð við gengisfellingu, en verðbólga og bankagjaldþrot
með tilheyrandi fjármagnsflótta urðu ekki umflúin. Landlæg spilling ráða-
manna hjálpaði ekki til og þaðan af síður kólnandi samskipti við Alþjóða-
gjaldeyrissjóðinn, en hann hafði lánað fyrri ríkisstjórnum fjármagn og
2 Um þessa atburðarás sjá t.d. Richard Gott, In the Shadow of the Liberator. Hugo
Chávez and the Transformation of Venezuela, London: Verso, 2000, bls. 66–73.