Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Qupperneq 102
102
STEfÁn ÁSGEIR GuðmundSSon
ins, sem ef til vill var aldrei fullkomin í reynd fyrir árið 1992, sé nú með
öllu horfin. Þær breytingar sem orðið hafi innan stjórnkerfis Venesúela
miði allar að því að efla miðstjórnarvaldið og efnahagskerfið líði fyrir það.
Sjálfur hefur Chávez gert lítið úr þessum gagnrýnisröddum enda telur
hann að markmiðum byltingarinnar verði ekki náð með öðrum aðferð-
um.17 Í ársbyrjun 2009 sýndi hann í verki hversu langt hann telur bylt-
inguna eiga í land og knúði fram breytingu á stjórnarskrá landsins sem
gerir honum kleift að bjóða sig fram til forseta eins oft og þurfa þykir. Þess
ber þó að geta að breytingar þessar voru samþykktar eftir þjóðaratkvæða-
greiðslu.
Ef betur er að gáð er þessi stjórnarskrárbreyting fyrst og fremst merki-
leg fyrir þær sakir að hún sýnir hin djúpu tengsl við arfleifð „sterka manns-
ins“ í Rómönsku Ameríku, auk þess sem hún undirstrikar hversu veikar og
ófullmótaðar stofnanir lýðræðisins eru á svæðinu. „Sterki maðurinn“ er
ákveðið pólitískt, efnahagslegt og félagslegt fyrirbæri sem varð til við sjálf-
stæði Rómönsku Ameríku. Hugtakið caudillo hefur jafnan verið notað um
hinn sterka mann. Hið pólitíska valdatóm sem myndaðist þegar Spánarveldi
missti nýlendur sínar kallaði á nýja og sterka einstaklinga, los caudillos.18
Þessir menn voru sterku einstaklingarnir í sinni sveit, sýslu, fylki og/eða
jafnvel landi. Þetta voru umfram allt stórir landeigendur sem höfðu sterk
tengsl við herinn og höfðu gjarnan vopnaða menn á sínum snærum. Létu
þeir skrifa fjölmargar stjórnarskrár í sinni tíð sem sjaldnast var farið eftir
og urðu þær því á skömmum tíma merkingarlausir pappírar. Hver og einn
caudillo samdi sínar eigin leikreglur og var einráður á sínu yfirráðarsvæði.
Mikilvægi hins „sterka manns“ í sögu Rómönsku Ameríku sést ef til vill
einna best á því hversu oft hann kemur fyrir í bókmenntum frá þessu
svæði. Heimsþekktir höfundar á borð við Gabriel García Márquez, Carlos
Fuentes, Mario Vargas Llosa og Isabel Allende hafa fjallað um hann, hvert
á sinn hátt.19
17 Ítarleg umfjöllun um sjónarmið fylgjenda og andstæðinga Chávez er að finna í
Marta Harnecker, „After the Referendum: Venezuela faces new challenges“,
Monthly Review, 56/2004, bls. 34–48.
18 Lýsing á sjálfstæði Rómönsku Ameríku og hlutverki caudillo má finna í John
Lynch, The Spanish American Revolutions 1808–1826, 2. útg., New York: W.W.
Norton, 1986, bls. 341–357. Sjá einnig Carlos Fuentes, El espejo Enterrado, México:
Taurus Alfaguara, 1992, bls. 381–409.
19 Sjá t.d. Gabriel García Márquez, El otoño del patriarca, 1975; Carlos Fuentes, La
muerte de Artemio Cruz, 1962; Mario Vargas Llosa, La fiesta del chivo, 2000; Isabel
Allende, La casa de los espíritus, 1987.