Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 147
147
annette lassen
Kynlífspíslir Bess í Breaking the Waves
Ævintýri á hvíta tjaldinu í anda H.C. Andersen
Þegar Breaking the Waves eftir Lars von Trier var frumsýnd árið 1996 var
mikið rætt um ömurleg örlög aðalpersónunnar Bess (Emily Watson) sem
leggur á sig einskonar kynferðislega píslargöngu sem leiðir til kvalarfulls
dauða hennar. Mörgum áhorfendum misbauð einfaldlega niðurlæging og
dauði Bess. En á sama tíma var einnig sett fram sú andstæða túlkun að
myndin væri í einhverjum skilningi helgisaga, vegna þess að sjálfsfórn Bess
væri hliðstæð fórnardauða Krists; bæði láti þau lífið eftir þjáningarfulla
píslargöngu til lausnar fyrir aðra og sé að lokum veitt viðtaka og uppreisn
í himnaríki af Guði sjálfum. Það sem styður þessa túlkun er að Bess elst
upp í mjög kristnu samfélagi og á í samræðu við Guð út í gegnum myndina
sem endar á kraftaverki, klingjandi bjöllum á himni, sem í guðfræðilegum
skilningi virðist eiga að opinbera velþóknun æðri máttarvalda á píslardauða
hennar. Þó stangast kynlífsþátturinn í píslum og fórnardauða Bess augljós-
lega á við hefðbundin kristin gildi en jafnframt virðast örvæntingarfullar
tilraunir aðalpersónunnar til þess að bjarga lífi eiginmanns síns, sem hún
elskar af mikilli og rómantískri ástríðu, ósambærilegar við mun stórkost-
legri afrek frelsara alls mannkyns. Hliðstæðan er samt fyrir hendi að ein-
hverju leyti og túlkun sögunnar sem helgisögu styrkist jafnframt af ýmsum
yfirlýsingum Lars von Trier sjálfs í tengslum við myndina.1 Það væri því
ekki undarlegt þótt einhverjum þætti höfundurinn gera sig sekan um lág-
kúrulegan sensasjónalisma í sadískri endurritun helgisögunnar.2
1 Sbr. Lars von Trier, Breaking the Waves, London: Faber and Faber, 1996.
2 Sbr. t.d. Arnfríði Guðmundsdóttur, „Female Christ-figures in Films: A Feminist
Critical Analysis of Breaking the Waves and Dead Man Walking“, Studia Theologica
56, 2002, bls. 27–43, hér bls. 38: „Bess [...] represents [...] a reverse Christ-figure
[...] von Trier idealizes Bess’ victimization in this film rather than lifting up the sin
Ritið 1/2009, bls. 147–160