Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 163
163
MARGKUNNUGAR KONUR OG ÓBORIN BÖRN
Það hefur vafist fyrir mönnum hvað hér er átt við með óbornu barni.
Þórði Jónssyni, einum ritara Landnámu frá 17. öld, var orðið greinilega
ótamt því hann ritaði fyrst „oskyrtt“ en leiðrétti sig svo á spássíu og segir
„oborid var skrifad“.3 Við útgáfu Landnámu árið 1774 er sú skýring gefin
að orðið merkti „ekki viðurkenndur, óskírður“.4 Vel má vera að fyrrnefnd
misritun Þórðar Jónssonar hafi þarna haft áhrif en ekki er hægt í fljótu
bragði að sjá rök fyrir þessum skilningi Jóns Ólafssonar frá Svefneyjum á
merkingu orðsins. Finnur Magnússon, leyndarskjalavörður, viðurkennir
líka óvissu um orðið og segir að skýring Jóns Ólafssonar sé líklega rétt.
Ennfremur reynir hann að renna stoðum undir þessa merkingu með því að
vísa til athafnar þar sem barn var borið í fang föður, og kemur reyndar
fyrir í mörgum sögum. Jafnframt bætir hann við merkinguna „sá sem ekki
var fæddur (móttekinn eða viðurkenndur), er faðirinn dó …“.5 Halldór
Halldórsson vildi dusta rykið af skýringu Jóns Ólafssonar um að það þýði
að barn sé ekki móttekið af föður. Hann bætir því við að enn tíðkist að tala
um að faðir gangist við barni og að sú athöfn hafi til forna kallast „at bera
í ætt“ og komi fyrir í Grágás, og ennfremur orðasambandið að vera kominn
í ætt. Sá sem ekki hefði verið „borinn í ætt“ hefði þannig verið kallaður
óborinn. Honum finnst því sennilegast að átt sé við „að faðir viðurkenndi
ekki barn“.6 Jón Steffensen tók í sama streng og taldi líklegast að sögnin að
bera hefði aldrei verið notuð um að fæða hjá konum heldur sé átt við að
„bera barn í ætt“.7 Jakob Benediktsson, útgefandi Landnámu, er sammála
fyrrgreindum fræðimönnum og segir: „Óborit barn merkir hér sennilega
barn sem faðir hefur ekki gengizt við …“8
3 Skarðsárbók, Jakob Benediktsson gaf út, Reykjavík: Háskóli Íslands, 1958, bls. 52,
nmgr.
4 „Uborinn non susceptus, non baptizatus“, Islands Landnámabok. Hoc Est: Liber
Originum Islandiae. Kaupmannahöfn 1774, bls. 507. Þýðingin er fengin frá Hall-
dóri Halldórssyni, „Keisaraskurður. Óborinn. Óborið fé“, Örlög orðanna. Þættir
um íslenzk orð og orðtök, Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar, 1958, bls. 93–110,
hér bls. 99.
5 Finnur Magnússon, Grönlands historiske mindesmærker I, Kaupmannahöfn: Konge-
lige Nordiske Oldskrift-Selskab, 1838, bls. 100. Hér er um að ræða þýðingu
Halldórs Halldórssonar í „Keisaraskurður. Óborinn. Óborið fé“, bls. 108, á
dönskum texta Finns: „den som ikke var födt (antaget eller erkjendt) da Faderen
döde …“
6 Halldór Halldórsson, „Keisaraskurður. Óborinn. Óborið fé“, bls. 109.
7 Jón Steffensen, „Nokkrir þættir úr menningu hins íslenzka þjóðfélags í heiðni“,
Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 1967, bls. 25–44, hér bls. 41.
8 Landnáma, bls. 138, nmgr.