Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Qupperneq 166
166
auðuR InGvaRSdóTTIR
grösum á jarðareign bóndans hefur þannig hugsanlega verið af írskum
fróðleiksrótum sprottið. Benda má á að mjúk og ilmandi grös tengdust
Maríutrú og voru að sögn lögð í rúm sængurkvenna og notuð til lækn-
inga.22 Í íslenskum lækningaritum af fornum stofni eru gefin fjölmörg ráð
við ýmsum kvennakvillum og þá ekki síst í sambandi við meðgöngu og
fæðingu. Þar er að finna upplýsingar um jurtir sem m.a. leysa „eftirburð
frá konu“, hreinsa „kvennasjúkdóm“ eða skunda barnsburði.23 Eitt dæmi
úr sögum má nefna þar sem líklegt er að örli á slíkri þekkingu. Í Finn-
bogasögu segir af Syrpu fóstru Þorgerðar og að hún hafi verið „vel kunnandi
allt þat, er hon skyldi gera“. Einnig segir af grasakunnáttu hennar: „Svá er
sagt, at þann sama dag er Þorgerðr varð léttari sendi Syrpa bónda sinn at
vita sér um brúngras, því at hon gerði mart fóstru sinni þat er hon þurfti at
hafa.“24 Hérna liggur beinast við að álykta að margkunnátta Syrpu tengist
ástandi Þorgerðar og þörf hafi verið á grasakerlingu með þekkingu á fæð-
ingarhjálp og kvennakvillum á heimilið. Brúngrasið hafi þá væntanlega
verið ætlað til að hjálpa Þorgerði við fæðinguna eða eftirköst hennar. Ekki
eru aðrar heimildir til um brúngrasið25 sem kemur fyrir í Finnbogasögu en
hugsanlega gæti verið um jurt að ræða sem kölluð er búgras í fornu lækn-
ingariti og var einmitt sérstök kvennajurt. Sú jurt heitir artemisia á latínu
og er heitið líklega dregið af nafni grísku gyðjunnar Artemis sem var
verndari fæðandi kvenna.26 Við nánari athugun á þessari jurt varð þó að
hafna þessari tilgátu: þótt jurtin komi margoft fyrir í íslenskum lækninga-
handritum hefur hún aldrei vaxið hér villt. Athyglisvert er að hún hefur
hins vegar verið ræktuð hér á landi og þótt nytsemdarplanta.27 Önnur jurt
22 Bengt Holbek, „Maria i folketraditionen“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk midd el-
alder XI, bls. 367–371.
23 An old Icelandic medical miscellany, útg. Henning Larsen, Osló: Det norske viden-
skaps-akademi i Oslo, 1931, bls. 57, 64, 77. Fært til nútímastafsetningar.
24 Finnboga saga, Íslenzk fornrit XIV, Jóhannes Halldórsson gaf út, Reykjavík: Hið
íslenzka forritafélag, 1969, bls. 255–256. Greinarhöfundur skáletrar.
25 Skýringin sem gefin er í fornritaútgáfunni er að brúngrösin séu líklega litunargrös.
Miðað við frásögnina er eðlilegra að gera ráð fyrir lækningagrösum; Finnboga saga,
bls. 256, nmgr.
26 John M. Riddle, „Contraception and Early Abortion in the Middle Ages“, Hand-
book of Medieval Sexuality, útg. Vern Bullough, James A. Brundage, New York,
London: Garland Publishing, 1996, bls. 261–277, hér bls. 269.
27 Þessi jurt er oftast kölluð malurt þótt búi eða búgras komi fyrir í læknahandritum;
Ingólfur Guðnason, „Vísbendingar um garðrækt í Skálholti á fyrri öldum“, Frum-
kvöðull vísinda og mennta, Þórður Þorláksson biskup í Skálholti, ritstjóri Jón Pálsson,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998, bls. 143–157, hér bls. 144.