Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Side 185
MÁLFRELSI OG DÖNSKU MÚHAMEÐSTEIKNINGARNAR
185
andmæla þeim sem vilja setja hömlur á einstaklingsfrelsi í nafni háleitra
markmiða svo sem sannleika eða þroska almennings.14 Auk þess bendir
Mill á að menn missi næstum jafnmikils á að bæla ranga skoðun og rétta,
og Meckl vitnar raunar til þeirra ummæla neðanmáls (126, nmgr. 13) en
gerir ekkert með þau. Samkvæmt Mill eru það því engin rök fyrir skerð-
ingu málfrelsis að skoðunin sé álitin röng að hluta eða í heild sinni.
Frelsisskerðing réttlætist einungis af skaða; gæta þarf að því hvort ein-
staklingurinn skaði réttmæta hagsmuni annarra, til dæmis með ærumeið-
ingum, eigi félagslegt aðhald að koma til álita.
Víkjum stuttlega að tveimur öðrum forkólfum í prentfrelsisbaráttunni
sem Meckl vísar allítarlega til, þeim John Milton og Andrew Hamilton.
Meckl heldur því fram að þegar þessir höfundar börðust fyrir auknu prent-
frelsi hafi þeir einungis barist fyrir réttinum til að segja sannleikann, eða
rétti manna til að leggja eitthvað fram í sannleiksleitinni. Þannig hafi hið
æðra markmið prentfrelsis, sannleikurinn, vísað á endimörk þess. „Í augum
púrítanans Miltons hafði kaþólska kirkjan ekkert fram að færa í leitinni að
sannleikanum“, skrifar Meckl, „og þar af leiðandi hafði hún engan rétt til
að taka þátt í opinberri umræðu“ (126). Áður en við spyrjum hvort Milton
hafi verið þessarar skoðunar er vert að vekja athygli á því hve fjandsamleg
frelsinu hún er og hve skelfilegar afleiðingar hún hefði fyrir prentfrelsi.
Lögmálið sem hér er óbeint vísað til – prentfrelsi takmarkast við það hvort
viðkomandi sé álitinn hafa eitthvað fram að færa í sannleiksleitinni – myndi
beinlínis ganga af frelsinu dauðu á skömmum tíma væri því fylgt samvisku-
samlega. Það er til dæmis ávallt óvissu undirorpið hvort menn hafa í raun
eitthvað fram að færa í sannleiksleitinni. Og hafi menn komið auga á
algerlega ný sannindi er næsta víst að margir muni telja að þeir hafi ekkert
fram að færa í þeirri leit. Einnig er nauðsynlegt að minnast þess að flestir
menn, ekki síst hugsuðir, eiga eða gætu átt í glímu við sína eigin „kaþólsku
kirkju“, einhvern höfuðóvin sem þeir telja að hafi ekkert fram að færa í
leitinni að sannleikanum. Nær endalaus tilefni gæfust til að halda mönnum
utan við hina opinberu umræðu væri þessu lögmáli, sem Meckl eignar
Milton, fylgt fast eftir.
En lýsir Milton, þessi baráttumaður fyrir auknu prentfrelsi, virkilega
þessari skoðun í Areopagitica? Í tilvitnuninni sem Meckl hefur eftir honum
máli sínu til stuðnings (126, nmgr. 11) er ekkert sagt um sannleika eða lygi,
og þar er hvergi sagt að kaþólska kirkjan hafi engan rétt á að taka þátt í
14 Sjá t.d. umræðu Mills um mannvinina í þriðja kafla Frelsisins.