Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 191
MÁLFRELSI OG DÖNSKU MÚHAMEÐSTEIKNINGARNAR
191
senda þess að dönsku teikningarnar njóti frelsisverndar, sé það þá yfirhöf-
uð afstaða hans. Hann staðhæfir bara að „prentfrelsi prentfrelsisins vegna“
sé notað til að réttlæta teikningarnar, og virðist ekki átta sig á tvíræðninni
í orðanotkun sinni. Niðurstaða Meckls er því einkennileg því þrátt fyrir að
hann skoði dönsku teikningarnar sérstaklega í ljósi fræða þeirra, svarar
hann aldrei þeirri spurningu hvort frumherjarnir hefðu samþykkt eða
amast við birtingu slíks efnis, eða hvort það væri í anda frelsishugsjóna
þeirra að banna birtingu teikninganna.
Væri það í anda frelsishugsjóna til dæmis Johns Stuarts Mill að amast
við birtingu dönsku teikninganna? Við getum amast við birtingu slíks efnis
(i) með lagarefsingum, (ii) með siðferðilegri þvingun almenningsálitsins,
eða þá einfaldlega (iii) með því að láta í ljós óánægju okkar með teikning-
arnar og birtingu þeirra. Hér höfum við einungis áhuga á tveimur fyrst-
nefndu atriðunum enda felur hið þriðja ekki í sér frelsisskerðingu. Öðru
nær. Það væri gróf skerðing á málfrelsi að meina mönnum að lýsa megnri
óánægju sinni með dönsku teikningarnar og dagblaðið sem birti þær.
Ég sé í grunninn aðeins þrjár leiðir til að færa rök fyrir því að frelsis-
verndarrök að hætti Mills næðu ekki til dönsku teikninganna. Í fyrsta lagi
mætti reyna að vísa til skaða. En til að skaðareglan nái til dönsku teikning-
anna verður að túlka hana vítt. Meckl virðist hlynntur því. Hann vitnar að
minnsta kosti með velþóknun til eftirfarandi orða Walters Lippmann: „Ef
ég gerist ósannsögull í dómsmáli sem snýst um kú nágranna míns, þá get
ég átt á hættu að lenda í fangelsi. En ef ég lýg einhverju að milljón lesend-
um um efni sem varðar stríð og frið, þá get ég logið eins og mig lystir.“
(130) Í beinu framhaldi víkur hann síðan að dæmi Lippmanns um að menn
njóti friðhelgi þótt þeir ljúgi einhverju upp á heila þjóð (Japani), og þótt
það sé ekki sagt berum orðum er hugsunin hér greinilega sú að útvíkkuð
skaðaregla kæmi í veg fyrir að menn nytu slíkrar friðhelgi. Mill túlkar
skaðaregluna hins vegar þröngt þegar kemur að hugsunar- og málfrelsi
eins og fyrr var sagt. Í þessu samhengi er vert að geta þess að Mill gagn-
rýndi frá unga aldri enska meiðyrðalöggjöf og lét oft í ljósi áhyggjur af því
hve illa skilgreint hugtakið ærumeiðing (e. libel) var í enskum lögum.24
Slíkt byði ávallt heim hættunni á að prentfrelsið væri skert í nafni óljóss og
teygjanlegs skaðahugtaks.25
24 Þegar Mill skrifar fyrstu blaðagreinar sínar um ærumeiðingar er raunar ekki nein
sérstök löggjöf um ærumeiðingar á Englandi heldur styðjast dómarar bara við
almenn lög í því viðfangi.
25 Sjá t.d. greinina „Law of Libel and Liberty of the Press“ frá árinu 1825. John